Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun vekur athygli neytenda á því að á markaði hér á landi hefur fundist snyrtivara sem tilkynnt var nýlega í RAPEX tilkynningakerfi framkvæmdastjórnar ESB um hættulegar vörur á markaði. Um er að ræða naglalakkið Depend GelLack (númer tilkynningar: A12/1226/14). 

Í gegnum RAPEX geta öll ríki á Evrópska efnahagssvæðinu tilkynnt um vörur á markaði, aðrar en matvæli, lækningavörur og lyf, sem geta verið skaðlegar heilsu manna. Á hverjum föstudegi er birt vikulegt yfirlit í RAPEX yfir slíkar vörur þar sem veittar eru ýmsar upplýsingar um vöruna, mögulega hættu og til hvaða aðgerða var gripið í viðkomandi landi. Hægt er að skoða vikuleg yfirlit á heimasíðu RAPEX

Depend GelLack hefur, sökum fjölda tilkynninga um alvarleg ofnæmistilfelli, verið fjarlægt af markaði í Svíþjóð og í Danmörku. Ofnæmisviðbrögðin hafa m.a. falið í sér kláða, blöðrur á fingrum, sár og exem. 

Umhverfisstofnun brýnir fyrir neytendum að lesa vandlega sérstakan leiðbeininga- og viðvörunarbækling sem umboðsaðili naglalakksins hér á landi hefur útbúið og mun fylgja vörunni. Mikilvægt er að lakkið sé meðhöndlað á réttan hátt.