Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Alex Toogood

Sjálfboðaliðar Umhverfisstofununar komu að fjölmörgum verkefnum á hálendinu í sumar, í samstarfi við landverði Vatnajökulsþjóðgarðs. Samtals voru unnar 271 mannvikur eða 1355 vinnudagar. 

Við Öskju unnu sjálfboðaliðar dögum saman við að raka sanda og afmá þannig utanvegaaksturshjólför. Er það seingert en hjálpar til við að endurheimta landslag og kemur í veg fyrir frekari utanvegaakstur. Þá settu sjálfboðaliðar upp skilti ásamt vegvísum og unnu að göngubrú við Dreka. Sjálfboðaliðarnir unnu samtals í eina og hálfa viku á svæðinu. 

Í Kverkfjöllum var unnið að samskonar verkefnum og í Öskju – utanvegaakstursummerki afmáð, vegir merktir betur og afmarkaðir og upplýsingum miðlað með uppsetningu skilta. Þá voru einnig merktar gönguleiðir og bílastæðið lagað. 

Við Laka unnu sjálfboðaliðar að umbótum á gönguleiðum og voru stígar og tröppur lagfærðar. Þar var einnig unnið að endurnýjun landsvæðis eftir utanvegaaksturs. Eitt aðaleinkenni vinnunnar við Laka er mosagræðsla en hún hefur verið stunduð þar í mörg ár undir handleiðslu Kára Kristjánssonar landvarðar. Brugðið hefur verið á það ráð að færa mosa af svæðum þar sem hann vex framaf börðum eða þar sem ágangur á hann er lítill. Mosinn er síðan græddur á svæði þar sem svöðusár hafa myndast í mosabreiður eða villustígar myndast. Sjálfboðaliðar UST hafa komið að þessari vinnu undir handleiðslu landvarðar. Unnu þeir samtals í tvær vikur við Laka í sumar. 

Í Nýjadal tóku sjálfboðaliðar þátt í að ryðja grjót af vegi (F910) undir handleiðslu landvarða, utanvegahjólför voru fjarlægð og vegastikur settar upp.

Við Snæfell voru sett upp skilti við Snæfellsstofu og á leið til Vatnsdals. Sjálfboðaliðar unnu einnig að stikun gönguleiða við Snæfell. Þá voru vegaslóðar lagfærðir og afmarkaðir. 

Einnig unnu sjálfboðaliðar UST í Lónsöræfum, við tröppugerð, viðhald stíga og við uppsetningu skilta. Þá var tveimur vikum varið í viðhald göngustíga og frágang útsýnispalls við Eldgjá. 

Sjálfboðaliðar UST vinna langan vinnudag, oft við misjafnar aðstæður og er enginn vafi á því að aðstæður geta verið sérstaklega erfiðar á hálendi Íslands. Þó er það yfirleitt eftirsótt hjá sjálfboðaliðunum að fá að vinna einhverjar vikur með landvörðum á hálendinu. Að lokum þakka sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar landvörðum Vatnajökulsþjóðgarðs kærlega fyrir samstarfið.