Stök frétt

Rjúpa í vetrarbúning.
Rjúpnaveiðar munu hefjast föstudaginn 24. október. Heimilt er að veiða í samtals tólf daga sem skiptast á fjórar þriggja daga helgar fram til 16. nóvember. Á síðasta ári ákvað ráðherra fyrirkomulag rjúpnaveiða til þriggja ára. Komi ekkert óvænt fram um ástand rjúpnastofnsins liggur fyrir að sambærilegt fyrirkomulag verður einnig haft á rjúpnaveiðinni á næsta ári.

Náttúrufræðistofnun metur veiðiþol rjúpnastofnsins 48.000 rjúpur. Umhverfisstofnun telur að veiðin í ár verði í samræmi við veiðiþolsmatið þar sem það er um 10% af áætluðum veiðistofni. Fyrir liggur að sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum hefur ásamt hófsemi veiðimanna skilað góðum árangri í veiðistjórnun. Eftir að sölubann kom til eru vísbendingar um að veiðimenn veiði 10% rjúpnastofnsins óháð fjölda leyfilegra sóknardaga. Að meðaltali hafa rjúpnaveiðimenn farið þrjá og hálfan dag til rjúpnaveiða óháð því hversu marga daga er leyfilegt að veiða.

Veiðimenn eru hvattir til að hætta við veiðiferð ef veðurspá gefur tilefni til og huga vel að útbúnaði og öryggismálum. Hver og einn veiðimaður er ennfremur hvattur til að veiða ekki meira en þörf er á og stunda þannig hófsamar veiðar.

Veiðimenn eru ennfremur hvattir til að kynna sér 112 snjallsímaforritið á safetravel.is. Forritið er afar einfalt í notkun og hefur tvennskonar virkni. Annarsvegar er hægt að kalla á aðstoð ef um slys eða óhapp er að ræða. Hinsvegar að skilja eftir sig „slóð“ sem kemur að miklu gagni ef óttast er um afdrif viðkomandi og leit þarf að fara fram. Forritið leysir ekki af hólmi önnur öryggistæki eins og neyðarsenda, talstöðvar og áttavita en nýtist vel veiðimönnum sem nota snjallsíma. 

Fyrirkomulag rjúpnaveiða 2014 er eftirfarandi: 

Veiðiverndarsvæði er áfram á SV-landi. 

Veiðitímabilið skiptist á fjórar helgar með eftirfarandi hætti: 

  • Föstudaginn 24. október til sunnudags 26. október. Þrír dagar. 
  • Föstudaginn 31. október til sunnudags 2. nóvember. Þrír dagar.
  • Föstudaginn 7. nóvember til sunnudags 9. nóvember. Þrír dagar. 
  • Föstudaginn 14. nóvember til sunnudags 16. nóvember. Þrír dagar.