Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Rjúpa í vetrarbúning.

Framundan er fyrsta rjúpnahelgin í ár. Ætla má því að fjöldi veiðimanna séu að yfirfara útbúnað sinn til veiðana og skipuleggja veiðferðir. Rjúpnaveiðar eru líkamlega erfiðar og krefjast úthalds og útbúnaðar við hæfi. Það er margt líkt með rjúpnaveiðum og fjallgöngu. Veiðimaðurinn þarf að vera fær um fjallgöngu bæði hvað útbúnað og þol varðar. Það gengur því ekki átakalaust að veiða rjúpur í jólamatinn. Huga þarf vel að útbúnaði og veðri og þekkja takmörk þreks og þols. 

Einnig er mikilvægt að gera ferðaáætlun sem allir veiðifélagar vita af og líka þeir sem heima sitja. Þannig er hægt að kalla til hjálp ef veiðimaður skilar sér ekki á tilsettum tíma. 112 smáforritið fyrir snjallsíma er gagnlegt fyrir veiðimenn í því sambandi. Hægt er að sækja smáforritið á safetravel.is

Veiðifélagar sem leggja af stað til veiða að morgni ættu að sammælast um komutíma í bíl og virða þá ferðaáætlun. Sé einhver ekki kominn á tilsettum tíma og ekki næst samband við hann er mikilvægt að kalla til hjálp áður en myrkur skellur á. Það er því mikilvægt að hafa í huga hversu langt á eftir að ganga þegar skyggja tekur. Heppilegt er að hafa meðferðis áttavita, GPS-tæki, höfuðljós og farsíma. Farsíminn þarf að vera í vatnsheldu hulstri og heppilegt er að hafa með auka rafhlöður í hann og GPS-tækið. 

Í heildina er heimilt að veiða 12 daga í ár. Það eru umtalsvert færri dagar en rjúpnaveiðimenn áttu að venjast hér áður fyrr þegar veiðitímabilið stóð í 69 daga. Reyndar fara flestir rjúpnaveiðimenn einungis innan við fjóra daga til rjúpnaveiða óháð leyfilegum dagafjölda. Áreynsla, erfiði og þörf á rjúpum í jólamatinn hefur eflaust mikið að segja um það hversu marga daga menn halda til rjúpna. Veiðimenn eru hvattir til að veiða ekki fleiri rjúpur en þörf er á og minnt er á að sölubann er í gangi á rjúpum og rjúpuafurðum. 

Frá því að sölubann tók gildi hefur magnveiði dregist saman. Hófsemissjónarmið auka líkurnar á að hægt verði að stunda sjálfbærar rjúpnaveiðar um ókomna tíð. Það skiptir því máli að umgangast þessa náttúruauðlind af virðingu og standa um leið vörð um þau forréttindi sem felast í að geta stundað skotveiðar í íslenskri náttúru. 

Réttur til veiða á landi ræðst af eignarhaldi landsins. Það er því mikilvægt fyrir veiðimenn að þekkja eignarhald landsins sem þeir hyggjast veiða á og virða rétt landeigenda til að stjórna veiðum á sínu landi. Ennfremur þarf að hafa í huga að ákveðin landsvæði hafa verið friðlýst. Þegar svæði er friðlýst er ekki sjálfgefið að veiðar séu bannaðar. Það hvílir skylda á veiðimönnum að kynna sér í hverju tilfelli fyrir sig hvaða reglur gilda um það landsvæði sem þeir hyggjast veiða á. Ábyrgðin er veiðimannsins. Hægt er að finna upplýsingar um friðlýst svæði á vefsvæði Umhverfisstofnunar. Þar er hægt að sjá hvort veiðar séu heimilar eða ekki samkvæmt friðlýsingunni. 

 Að lokum eru veiðimenn hvattir til að hafa í huga loftgæðaspá vegna eldgoss.

Tenglar