Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun vekur athygli neytenda á því að Kostur hefur innkallað blautþurrkur af gerðinni Kirkland Signature baby wipes. Ástæða innköllunarinnar er sú að blautþurrkurnar innihalda rotvarnarefnið lodopropynyl butylcarbamate sem samkvæmt snyrtivörureglugerð (EB) nr. 1223/2009 er ekki leyfilegt að nota í vörur sem ætlaðar eru börnum yngri en þriggja ára. Kostur bendir þeim viðskiptavinum sem keypt hafa vöruna á að hægt er að skila vörunni og fá hana endurgreidda eða skipta henni út fyrir aðra vöru frá sama framleiðanda. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Kosts.

Umhverfisstofnun hefur tilkynnt blautþurrkurnar inn í RAPEX tilkynningakerfi framkvæmdastjórnar ESB um hættulegar vörur á markaði. 

Í gegnum RAPEX geta öll ríki á Evrópska efnahagssvæðinu tilkynnt um vörur á markaði, aðrar en matvæli, lækningavörur og lyf, sem geta verið skaðlegar heilsu manna. Á hverjum föstudegi er birt vikulegt yfirlit í RAPEX yfir slíkar vörur þar sem veittar eru ýmsar upplýsingar um vöruna, mögulega hættu og til hvaða aðgerða var gripið í viðkomandi landi. Hægt er að skoða vikulegt yfirlit á heimasíðu RAPEX.