Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Gísli Jónsson

Umhverfisstofnun hefur veitt Síldarvinnslunni hf. starfsleyfi fyrir rekstur fiskimjölsverksmiðju við Strandarveg 1-11 á Seyðisfirði. Nýja leyfið veitir heimild til að framleiða úr allt að 1400 tonnum af hráefni á sólarhring, líkt og eldra starfsleyfi verksmiðjunnar sem er nú fallið úr gildi. Tillaga að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna var auglýst á tímabilinu 19. maí til 9. júlí 2014. Auk opinberrar auglýsingar á tillögunni var hún sérstaklega send til umsagnar hjá umsækjanda, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Skipulagsstofnun og Vinnueftirlitinu. 

Umhverfisstofnun bárust ekki athugasemdir við tillöguna frá umsagnaraðilum en umsækjandi sjálfur gerði athugasemdir við orðalag um fiskúrgang í grein 2.3 enda lítur umsækjandi ekki á hráefni sitt sem úrgang. Umhverfisstofnun sá sér fært að verða við þessum óskum rekstraraðila eftir breytingar á lögum 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sem samþykktar voru á Alþingi 16. maí 2014. Greininni hefur nú verið breytt á þann hátt að fjallað er um afskurð og aukaafurðir í stað afskurðs og fiskúrgangs. 

Að auki var bætt við grein 1.10 sem fjallar um umhverfisábyrgð en í samræmi við lög um umhverfisábyrgð nr.55/2012 þá ber rekstraraðili ábyrgð á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni af völdum atvinnustarfsemi. 

Nánari upplýsingar um meðferð athugasemda eru í greinargerð sem fylgir fréttinni. 

Nýja starfsleyfið öðlaðist gildi 29. október sl. og gildir til 29. október 2030.

Tengd gögn