Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Hákon Ásgeirsson

Það er fastur liður hjá Umhverfisstofnun að halda Töðugjöld ár hvert og fagna vel unnum störfum landvarða stofnunarinnar. Landverðir komu saman sl. föstudag og gerðu sér glaðan dag, báru saman bækur sínar og sögðu frá því helsta sem bar á góma í landvörslu sumarsins.

Í sumar störfuðu 27 landverðir hjá Umhverfisstofnun víðsvegar um landið og af þeim starfa 5 allt árið, en stofnunin hefur umsjón með rúmlega 100 friðlýstum svæðum á landinu. Landverðir sammæltust um að þörf væri á að fjölga landvörðum og lengja landvörslutímann þar sem ferðamönnum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum og ferðamannatíminn teygist nú yfir allt árið í mörgum landshlutum.

Helstu vandamál sem landverðir glímdu við í sumar var m.a. utanvegarakstur, en það er umtalsvert vandamál á viðkvæmustu svæðum landsins, á hálendinu. Mörg friðlýst svæði eru undir miklu álagi vegna ágangs ferðamanna. Mikið kapp hefur verið lagt á að stýra umferð um svæðin og loka aflögu stígum og svæðum sem þola ekki að gegnið sé um. Fyrir utan öll vandamál sem tekist er á við í þessu starfi má ekki gleyma því að eitt megin starf landvarða er að fræða fólk um náttúru Íslands og náttúruvernd og auka þannig upplifun og væntumþykju fólks til náttúrunnar. 

Þegar landverðir koma saman á Töðugjöldum, eru náttúruverndarmál gjarnan rædd í þaula enda er það þeirra hjartans mál. Það má með sanni segja að landverðir sinna starfi sínu af ástríðu og standa stoltir vörð um náttúru Íslands.