Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun fór nýverið í eftirlit hjá 7 fyrirtækjum sem setja plöntuverndarvörur á markað og skoðaði hvort vörur hefðu tilskilin leyfi til að mega vera á markaði og hvort merkingar á plöntuverndarvörur væru samkvæmt reglum. 

Í eftirlitinu voru skoðaðar samtals 60 plöntuverndarvörur og fram komu 10 frávik í 4 fyrirtækjum af þeim 7 sem voru í úrtakinu. Yfirleitt voru frávik fólgin í því að vara var ekki með markaðsleyfi hér á landi en í einu tilfelli vantaði merkingar á íslensku. 

Öll fyrirtækin hafa nú brugðist við frávikum með því að laga merkingar, senda vörur í förgun hjá viðurkenndum móttökuaðila eða taka vörur tímabundið af markaði þar til þeim hefur verið veitt markaðsleyfi. 

Plöntuverndarvörur eru skordýra-, sveppa- og illgresiseyðar sem notaðir eru í landbúnaði og garðyrkju til þess að verja uppskeru nytjaplantna fyrir skaðvöldum og getur notkun þeirra verið hættuleg heilsu manna og umhverfinu sé ekki rétt með þær farið. 

Umhverfisstofnun heldur utan um innflutningstölur fyrir plöntuverndarvörur og hefur út frá þeim áætlað að á Íslandi nemi notkun á plöntuverndarvörum 0,043 kg af virku efni á hvern ha ræktaðs lands. Þetta er afar lítil notkun miðað við nágrannalönd okkar í Skandinavíu, en sambærileg tala er 0,84 kg/ha í Noregi, 0,75 kg/ha í Svíþjóð og 1,6 kg/ha í Danmörku. 

Innflutningur á plöntuverndarvörum til landsins árin 2011-2014 og hlutfallsleg skipting eftir flokkum

                         2011                       2012                      2013                      2014
Samtals tonn til landsins
(tonn af virku efni á ári)
3,42 3,11 2,27 3,84
Illgresiseyðir  85% 86% 91% 84%
Sveppaeyðir 4% 2% 7% 9%
Skordýraeyðir 12%  13% 2% 7%