Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Við bæinn Smáratún er rekið fyrirmyndar sveitahótel sem ber nafnið Hótel Fljótshlíð. Hótelið er þriðja Svansvottaða hótelið utan höfuðborgarsvæðisins og það sjöunda á Íslandi. Hótel Fljótshlíð er þar að auki fyrst til að hljóta vottun samkvæmt nýlega endurskoðuðum og hertum reglum Svansins fyrir hótel, veitingarekstur og ráðstefnurými. 

Ferðaþjónusta hófst að Smáratúni árið 1986 en framsýni hefur einkennt reksturinn frá upphafi. Bærinn er stofnmeðlimur í félagssamtökunum Beint frá býli og hótelið byggir veitingarekstur sinn á miklu leyti á matvörum frá nærumhverfi. Gistirými á hótelinu eru 81 talsins og hótelið er með Access Iceland vottun. Hótel Fljótshlíð hefur einnig sett sér metnaðarfulla sjálfbærnistefnu sem snýr bæði að því að hvetja gesti hótelsins til góðra verka sem og að stuðla beint að sjálfbærni með vali sínu á vöru, samstarfi við aðila í heimabyggð og stöðugri vinnu að úrbótum. Hótelið lætur nú verkin tala með því að standast vottun norræna umhverfismerkisins Svansins. Þar með skipar Hótel Fljótshlíð sér í lið með framsæknustu hótelum landsins þegar kemur að umhverfismálum. 

Meðal atriða sem Svansvottuð hótel þurfa að uppfylla er að lágmarka orkunotkun sína, flokka úrgang bæði frá gestum og rekstri, notast við umhverfisvottuð hreinsiefni, skipta út einnota umbúðum, velja frekar sparperur og bjóða gestum upp á úrval af lífrænt vottuðum matvælum. 

Svansleyfishafar á Íslandi eru nú 28 talsins, þar af eru 7 Svansvottuð hótel. Áhugi íslenskra fyrirtækja á Svaninum eykst sífellt og enn fleiri hótel hafa nú þegar sótt um Svaninn. 

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra neyslu í samfélaginu svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.

Með vottun sinni bætist Hótel Fljótshlíð í ört stækkandi hóp ferðaþjónustufyrirtækja sem eru með Svaninn. Íslensk fyrirtæki sjá hag sinn í því að nýta vel þekkt og áreiðanlegt merki Svansins til að sýna fram á ábyrgt umhverfisstarf sitt og styrkja ímynd sína.