Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Ríki Evrópu gætu sparað gríðarlegar fjárhæðir árlega ef dregið yrði úr notkun á hormónaraskandi efnum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar sem kallast The cost of Inaction eða Kostnaður aðgerðarleysis. Þar kemur fram að árlegur kostnaður Evrópuríkja vegna minni vinnugetu og aukinnar þarfa á heilbrigðisþjónustu vegna áhrifa hormónaraskandi efna nemi að minnsta kosti 4,5 milljörðum danskra króna á ári. 

Þetta er þó eingöngu talið vera toppurinn á ísjakanum því í skýrslunni var eingöngu horft til áhrifa þessara efna á afmarkaðan heilsufarsvanda, þ.e. krabbamein í eistum, ófullnægjandi sæðisgæði og tveir tilteknir fæðingargallar í kynfærum sveinbarna. Umhverfisráðherrar Norðurlanda krefjast nú viðbragða Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. 

Hormónaraskandi efni eru efni sem í ákveðnum styrk geta haft áhrif á hormónakerfi líkamans. Áhrif þeirra eru fjölmörg, allt frá fæðingargöllum, efnaskiptavandamálum til krabbameina. Þessi efni hafa oftast áhrif á þroska fóstra í móðurkviði frá getnaði til myndunar fullþroska nýbura. Efnin hafa áhrif á kynþroska og geta valdið kveneinkennum hjá sveinbörnum og karleinkennum hjá stúlkum. Sami efnastyrkur hefur ekki sömu áhrif á vaxandi fóstur og mæður, og því eru þessi efni sérstaklega hættuleg fyrir verðandi mæður. 

Hormónatruflandi efni finnast í mjög lágum styrk í fjölda venjulegra heimilisvara. Þau eru nánst í öllum plastvörum, og við þekkjum þau meðal annars sem polychlorinated biphenyls (PCB), bisfenol A (BPA, polybrominated diphenyl ethers (PBDE) og fjölda falata. Þau finnast líka í vörum sem auglýstar eru BPA lausar. Hormónatruflandi efni hafa víðtæk áhrif í umhverfinu og á öll spendýr, en mest er athyglin á skaðsemi þeirra á sæðisframleiðslu karla, kyngetu og krabbameina í eistum, blöðruhálskirtli og brjóstum.