Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Margsinnis höfum við lesið um hörmuleg áhrif loftlagsbreytinga í skýrslum alþjóðastofnanna og vísindarannsóknum. En hvernig væri að sjá með eigin augum hvernig loftlagsbreytingarnar geta þróast allt til loka 21. aldarinnar ef mannkynið gerir ekki neitt til að sporna við þeim? 

Nýtt stafrænt verkefni á vegum norrænu ráðherranefndarinnar gerir þetta mögulegt en efnið er unnið upp úr fimmtu úttektarskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC ARS5), yfirgripsmestu skýrslu um loftslagsbreytingar sem nokkurn tímann hefur verið gerð. Skýrslan er svo viðamikil að ef henni væri staflað upp myndi hún vera um hálfur metri á hæð. 

Niðurstöðurnar eru sannfærandi og afleiðingarnar eru stundum ógnvekjandi. Til að koma niðurstöðunum sem best á framfæri var búinn til leiðarvísir sem gerir notendum kleift að vafra um framtíðina og sjá með eigin augum hvernig gert er ráð fyrir að sveiflur í hitastigi breytist fram til ársins 2100. Auk þess má lesa skáldaðar fréttafyrirsagnir úr framtíðinni sem lýsa áhrifum loftslagsbreytinganna sem fram koma í skýrslunni. 

Vanda Liv Hellsing, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, kom að verkefninu fyrir hönd Umhverfisstofnunar. Auk leiðarvísisins voru ellefu uppistandarar frá Norðurlöndunum fengnir til að vekja athygli á verkefninu með því að skrifa brandara um hnattræna hlýnun. ,,Framlag Íslands voru þau Saga Garðarsdóttir og Frímann Gunnarsson sem fengin voru til að gera uppistand til að vekja athygli á loftslagsbreytingum. Markhópurinn er ekki endilega þeir sem fagþekkingu á þessu sviði. Það er okkar von að þessi myndbönd vekji áhuga og forvitni fólks og að fólk kynni sér áhrif loftslagsbreytinga enn frekar, með því til dæmis að skoða líkanið,“ sagði Vanda Liv Hellsing en hér að neðan má sjá myndbönd þeirra Sögu Garðarsdóttur og Frímanns Gunnarssonar.