Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur veitt Matorku ehf., Fellsmúla starfsleyfi fyrir rekstur fiskeldisstöðvar, að Fellsmúla í Landsveit. Nýja leyfið veitir heimild til að framleiða allt að 350 tonn samanlagt af bleikju- og borraseiðum í fiskeldisstöð sinni. Leyfið gildir ekki til slátrunar.  Í umsókn um starfsleyfi kemur fram að með nýjum mengunarvörnum í fiskeldisstöðinni verður hægt að minnka grugg í frárennsli um allt að 90% frá því sem áður var. Jafnframt hefur verið komið á hringrásarkerfi á vatni innan stöðvarinnar þannig að vatnsnotkun er mun betri á hvert framleitt kíló af fiski en áður var og magn frárennslis minnkar umtalsvert. Fiskeldið í Fellsmúla mun samkvæmt umsókn ekki valda fækkun tegunda í lífríki Minnivallalækjar og ekki er talin hætta á því að fiskur sleppi úr fiskeldinu þar sem setþró er þannig byggð að eingöngu yfirfall fellur út í lækinn og rennur það í gegnum ristar. 

Tillaga að starfsleyfi fyrir fiskeldið var auglýst á tímabilinu 28. ágúst til 28. október 2014. Auk opinberrar auglýsingar á tillögunni var hún sérstaklega send til umsagnar hjá umsækjanda, Skipulagsstofnun, Matvælastofnun, Fiskistofu, Heilbrigðisnefnd Suðurlands, Orkustofnunar, Brunavarna Rangárvallasýslu og Rangárþings ytra. Umhverfisstofnun bárust nokkrar athugasemdir og eru upplýsingar um meðferð athugasemda í greinargerð sem fylgir starfsleyfinu. 

Nýja starfsleyfið tók gildi 4. desember sl. og gildir til 4. desember 2030.

Tengd gögn