Stök frétt

Höfundur myndar: Sigurður Ingason

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Ís 47 ehf. Starfsleyfið gildir til framleiðslu á allt að 1.200 tonnum af þorski og regnbogasilungi í sjókvíum í Önundarfirði. Rétt er að taka fram að fiskeldisstarfsemi er bæði háð starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. 

Tillaga að starfsleyfi var auglýst á tímabilinu 24. september til 19. nóvember 2014. Sjö aðilar gerðu athugasemdir um tillöguna. 

Skipulagsstofnun og Hafrannsóknastofnun gerðu athugasemd um ósamræmi í auglýstri tillögu miðað við tilkynningu um matsskyldu sem starfsleyfistillagan byggðist á. Nánar er gerð grein fyrir því máli í greinargerð sem fylgir fréttinni en niðurstaða málsins var sú að fækka eldissvæðum úr þremur í tvö vegna þessa. 

Þá kom fram sjónarmið Landssambands veiðifélaga um að nota skuli viðeigandi staðal fyrir eldisbúnað og einnig að styðjast eigi við burðarþolsmat eins og kveðið er á um í lögum um fiskeldi sem tóku gildi á seinasta ári. Umhverfisstofnun bendir á að umsókn ÍS 47 var samþykkt og komin til meðferðar áður en lögin tóku gildi auk þess sem eldisbúnaður heyrir undir ákvæði rekstrarleyfis. . Einnig bárust athugasemdir landeiganda við Önundafjörð þar sem lýst var nokkrum áhyggjum af þessum áformum vegna upplifunar ferðamanna, áhrifa á veiði o.fl. Þá bárust athugasemdir frá NASF, Veiðifélagi Langadalsárdeildar og Dýrfiski hf.  

Fyrir utan fækkun eldissvæða leiddu athugasemdir til þess að sett var sú regla í starfsleyfið að ekki verði heimilt að stunda fiskeldi á minna en 12 metra dýpi miðað við stórstraumsfjöruborð. Þá var sett inn ákvæði um hámarkslífmassa en framvegis verða ákvæði þess efnis í starfsleyfum fyrir sjókvíaeldi. Athugasemdir sem bárust fylgja fréttinni, sem og greinargerð um úrvinnslu þeirra eins og áður segir.

Tengd gögn

Athugasemdir