Stök frétt

Æðarkolla með unga

Árlegur leiðangur vísindamanna til Surtseyjar fór fram vikuna  13.-17. júlí nú í ár. Í hópnum sem taldi 10 manns voru vísindamenn frá Náttúrufræðistofnun og Landbúnaðarháskólanum ásamt bandarískum vísindarithöfundi Loree Burns sem er að vinna að bók um rannsóknir í Surtey sem er ætluð börnum og unglingum. Með í för var landvörður friðlandsins.

Eyjan tók á móti leiðangursmönnum með rigningu og þokulofti á mánudeginum og stytti ekki upp fyrr en á miðvikudagsmorgni. Vegna rigningarinnar þurftu sumir í hópnum að breyta verkáætlun sinni lítillega þar sem rigninginn hamlaði því að hægt væri að fara í máfavarpið þar sem ekki er hægt að fara um svæðið án þess að eiga á hættu að fæla fugla af hreiðrum og frá ungum. Verður ekki annað sagt að sólskinið hafi verið kærkomið á miðvikudeginum þó sumir í hópnum, þ.e. landvörðurinn, hafi gleymt að bera á sig sólarvörnina og brunnið.

Unnið var frá morgni til kvölds og meðal þess sem leiðangurinn leiddi í ljós var að ný varptegund fannst en æðarkolla með 3 nýklakkta unga varð á vegi eins leiðangursmannsins þar sem hún var á leið niður í fjöru með ungana. Ekki hefur fundist ný varptegund í eynunni síðan árið 2009 þegar heiðlóuhreiður fannst. Þá fundust tvær nýjar plöntutegundir í máfavarpinu, ljónslappi og stinnastör. Eru háplöntutegundir í eyjunni þá orðnar 74. Eins fundust nokkrar nýjar skordýrategundir.

Þrátt fyrir kalt vor var varp fugla með eðlilegum hætti. Varpinu hefur þó seinkað og voru ungar ekki komnir eins langt í þroska og undanfarin ár. Var því minna um máfsunga við bjargbrúnirnar en oft áður og að sama skapi meiri líkur á að rekast á þá í hávöxnum gróðrinum í varpinu þar sem þeir földu sig fyrir þessum risastórum furðuverum sem birtust þar allt í einu og voru þetta þeirra fyrstu kynni af mannfólkinu.

Fýllsvarp hefur aukist á jafnsléttu í mávavarpinu en þar sem engin landrándýr er að finna í Surtsey er hann ekki háður því finna hreiðurstað þar sem erfitt er að komast að honum. Væri því nánast hægt að labba upp að honum og klappa honum á hreiðrunum þ.e. ef hann lætur sig ekki hverfa rétt áður en komið er að honum og ælir ekki á viðkomandi í leiðinni. Það er því betra að sleppa því að reyna að klappa honum og taka frekar mynd í hæfilegri fjarlægð með góðri linsu. Minna stress fyrir fuglinn og oft á tíðum skemmtilegri myndir þar sem fuglarnir eru afslappaðri. Á það sama við um fleiri fuglategundir, ekki bara í Surtsey.

Gróður var í góðu ástandi og gaus upp mikið frjóský þegar gengið var í gegnum þétt graslendið í miðju varpinu þar sem gróðurinn er hvað þéttastur. Virðist gróðurinn vera búin að jafna sig að mestu eftir þurrkasumarið 2012 þegar ástand hans var hvað verst og gróður nánast sviðin.

Við mælingu á hita í sprungum á yfirborði móberg kom í ljós að hann hafði hækkað frá seinustu mælingu sem gerð var fyrir tveimur árum, einkum í Vesturbunkanum. Þá hafa útlínur eyjarinnar tekið nokkrum breytingum þegar sjórinn hefur verð að brjóta niður hraunið og grafa undan því. Er víða hægt að sjá sprungur í brúnum hraunsins við suðurströnd eyjarinnar og líklegt að sá hluti sem sprungin sé frá verði horfin áður en langt um líður. Er oft á tímum hægt að sjá breytingar á strandlengjuni frá ári þar sem rofið er mest og á tanganum norðan til á eyjunni.

Leiðangrinum lauk svo þegar varðskipið Þór kom og sótti leiðangursmenn á föstudeginum og flutti í land. Er þeim og áhöfn þyrlu gæslunar sem flutti leiðangursmenn til eyjarinnar þakkað kærlega fyrir flutninginn.

Nánar er hægt að fræðast um leiðangurinn í frétt Náttúrufræðistofnunar á heimasíðu þeirra  auk þess sem fleiri myndir er að finna á facebook-síðu Umhverfisstofnunar. Þórdís Vilhelmína Bragadóttir landvörður Surtseyjar sagði einnig frá leiðangrinum í Morgunútgáfunni á Rás 2.

 

Sprunga í móberginu
Fýll með unga í hreiðri
Tanginn
Máfsungi í felum í máfavarpinu
Surtsey séð frá Þór á leiðinni í land
Ljónslappi