Stök frétt

Um 84% plastumbúða utan um mat- og hreinlætisvörur bera skyldubundið merki sem segir til um plasttegund. Þetta er niðurstaða könnunar sem gerð var á vegum Umhverfisstofnunar í júlí sl. Merkingin er nauðsynleg fyrir skilvirka flokkun og endurvinnslu. Sambærileg könnun var gerð árið 2013 en þá voru 78% skoðaðra umbúða merktar. Þróunin er í rétta átt en ennþá vantar töluvert upp á að allar plastumbúðir séu merktar og þar með flokkunarhæfar á endurvinnslustöðvum.


Merkingin er ýmist þríhyrningur með númeri, skammstöfun á heiti plasttegunar eða hvort tveggja. Markmið könnunarinnar var að kanna tíðni réttra merkinga á stikkprufum og vekja athygli íslenskra framleiðenda á skyldu þeirra til að merkja plastumbúðir. Leitast var við að skoða sömu vörur og 2013 eða sambærilegar ef þær nákvæmlega sömu fundust ekki í hillum.


Könnunin náði til 108 vara í sex vöruflokkum og var 91 vara merkt. Eins og sjá má á grafinu hér að neðan er hlutfall merktra vara um 90% í öllum flokkum nema í flokki niðursneiddra brauða sem dregur heildarhlutfallið niður.

 

Af heildarúrtakinu voru 88 vörur þær nákvæmlega sömu og skoðaðar voru 2013. Árið 2013 voru 65 þeirra merktar en nú eru þær komnar upp í 76. Þótt hlutfall merktra vara sé lægst í flokki niðursneiddra brauða hafa mestar framfarir orðið í þeim flokki. Árið 2013 voru engir brauðpokar merktir en nú er hlutfallið komið í 47%.

Niðurstöður könnunarinnar hafa verið sendar á þær verslanir sem könnunin var framkvæmd í, Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Samtök verslunar og þjónustu, helstu framleiðendur og birgja hérlendis ásamt endurvinnsluaðilum. Þeir aðilar sem ekki höfðu vörur sínar rétt merktar fá auk þess senda kröfu um úrbætur og í framhaldi af því verður þvingunarúrræðum beitt.


Heildarniðurstöður könnunarinnar má sjá hér.

Nánar um merkingu plastumbúða hér.