Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Kristinn Már Ársælsson

Álverið á Grundartanga hefur áform um auka framleiðslu sína með straumhækkun, en núverandi starfsleyfi gefur heimild til að framleiða allt að 300.000 tonn á ári og gildir til ársins 2020. Því hefur fyrirtækið sótt um nýtt starfsleyfi. Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Norðurál Grundartanga ehf. fyrir framleiðslu á allt að 350.000 tonnum af áli, auk tengds reksturs. Núverandi deiliskipulag er hins vegar talið í ósamræmi við þessi áform fyrirtækisins. Nýtt deiliskipulag er nú í auglýsingu til 3. september n.k. Það er forsenda fyrir útgáfu starfsleyfis að aðalskipulag liggi fyrir sem geri ráð fyrir eða útiloki a.m.k. ekki viðkomandi starfsemi. Sé starfsleyfi gefið út án þess að fyrir liggi deiliskipulag má ekki gefa það út til lengri tíma en fjögurra ára samkvæmt reglugerð þar að lútandi. Því er gert ráð fyrir að nýtt deiliskipulag muni hafa tekið gildi fyrir útgáfu starfsleyfis.

Í greinargerð sem fylgir fréttinni kemur fram að  tillaga að starfsleyfi feli í sér að mælingar á losun álversins verða auknar á þungmálmum og PAH-efnum. Þá er ekki gert ráð fyrir auknum heimildum fyrirtækisins fyrir heildarlosun á flúor og eru framleiðslutengd losunarmörk því þrengd þannig að heimild fyrir heildarlosun flúors er ekki aukin.

Einnig má geta þess að niðurstaða Skipulagsstofnun vegna fyrirspurnar um matsskyldu framkvæmdarinnar var sú að hún er ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Tillagan mun liggja frammi ásamt umsóknargögnum á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar á tímabilinu 25. ágúst til 20. október 2015. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 20. október 2015. Athugasemdirnar eiga að vera skriflegar og þær skal senda til Umhverfisstofnunar (t.d. á netfangið ust@ust.is eða með bréfi). Öll gögn eru einnig aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar, http://www.umhverfisstofnun.is/ .

Boðað er til opins kynningarfundar í Fannahlíð, Hvalfjarðarsveit, mánudaginn 31. ágúst kl. 17:00. Þar verður kynning á tillögunni og starfsleyfisveitingum Umhverfisstofnunar og loks opnað fyrir fyrirspurnir og umræður um þau atriði sem fundargestir vilja ræða varðandi starfsemina og áhrif álversins á umhverfið.

Tengd gögn