Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Samkvæmt 5. mgr. 21. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál skulu flugrekendur árlega senda Umhverfisstofnun skýrslu um losun koldíoxíðs á undangengnu almanaksári. Skýrslan skal berast Umhverfisstofnun í síðasta lagi 31. mars ár hvert skv. 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 72/2013 um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Skýrslan skal vera vottuð af óháðum vottunaraðila, sbr. 4. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 72/2013.

Þar sem líða fer að skilum vill Umhverfisstofnun minna flugrekendur sem árið 2015 stunduðu flugstarfsemi sem greint er frá í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi með losunarheimildir, að skila inn losunarskýrslu til Umhverfisstofnunar.

Vakin er athygli á því að samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 421/2014 sem tók gildi á Íslandi 7. júní 2014, sbr. reglugerð nr. 540/2014 hafa eftirfarandi breytingar verið gerðar á skýrslugjöf:

Eftirfarandi losun er undanþegin skýrslugjöf:    

  1. Öll losun til og frá flugvöllum sem staðsettir eru í löndum utan Evrópska Efnahagssvæðisins (EES) á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016,
  2. öll losun frá flugi milli flugvallar, sem er staðsettur á ysta svæði í skilningi 349. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, og flugvallar sem staðsettur er á öðru svæði EES, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016.

Flugrekendur sem eru ekki í atvinnurekstri og hafa losun undir 1.000 tonnum í flugferðum sem falla undir viðskiptakerfið samkvæmt II. viðauka laga nr. 70/2012 eru undanþegnir viðskiptakerfinu á tímabilinu 1. janúar 2013 – 31. desember 2020.

Flugrekendur sem losa minna en 25.000 tonn af CO2 á ári í flugferðum sem falla undir viðskiptakerfið samkvæmt II. viðauka laga nr. 70/2012 hvort sem þeir eru í atvinnurekstri eða ekki geta nú ákvarðað losun sína samkvæmt tæki Framkvæmdastjórnarinnar fyrir smálosendur (e. Small Emitters tool). Í slíkum tilvikum skulu gögn til að ákvarða losun koma frá Eurocontrol og vöktunaráætlun skal vera í samræmi við reglugerð nr. 72/2013.

Í kjölfar inngöngu Króatíu inn í Evrópusambandið þann 1. júlí 2013 skal einnig gera grein fyrir losun frá flugi milli flugvalla í Króatíu og annarra flugvalla innan EES og/eða tveggja flugvalla innan Króatíu.

Hægt er að skila skýrslunum hvenær sem er fyrir 31. mars nk. Sniðmát fyrir skýrslur og frekari upplýsingar má finna á undir flipanum: Vöktun og skýrslugjöf.

Vakin er athygli á nýju sniðmáti fyrir árið 2015

Að auki er vakin athygli á því að skrá verður heimildir fyrir losun árið 2015 inn í skráningarkerfið fyrir 31. mars næstkomandi, og verður skráningin að vera staðfest af vottunaraðila.

Einnig er góður tími núna til þess að ganga frá breytingum á viðurkenndum fulltrúum í skráningarkerfinu ef þeim breytingum á að vera lokið fyrir uppgjör.

Ef einhverjar spurningar vakna, vinsamlegast hafið samband við Umhverfisstofnun í gegnum tölvupóstfangið ets-aviation@ust.is