Stök frétt

Umræða um dekkjakurl og mögulega skaðsemi þess hefur verið áberandi undanfarna mánuði. Notkun gúmmíkurls á þessum völlum hefur valdið nokkrum áhyggjum því það getur innihaldið ýmis hættuleg efni sem geta losnað út í umhverfið. Gúmmíið er ekki hættulegt ef snerting við það er í takmörkuðu mæli. Ákveðin hætta er þó fólgin í því að ef gervigrasið og gúmmíið er ekki endurnýjað reglulega þá byrji smám saman að kvarnast úr gúmmíinu sem þyrlast þá frekar upp og valdi loftmengun vegna ryks og gúmmíagna.

Á mörgum gervigrasvöllum er notað gúmmíkurl sem oft er fengið úr notuðum bíldekkjum. Endurunnið gúmmí með þessum hætti er ódýrara en nýtt en inniheldur meira af óæskilegum efnum. Gúmmí getur verið misjafnt að gerð en þó er oftast nær óhjákvæmilegt að nota ýmis skaðleg efni við framleiðsluna eins og þungmálma á borð við blý, zink og kadmíum.

Það versta við endurunna gúmmíið er að við framleiðslu bíldekkja hér áður fyrr var notað mikið af olíu sem inniheldur fjölhringa arómatísk vetniskolefni (PAH) sem eru þrávirk og geta m.a. valdið krabbameini. Notkun slíkrar olíu við framleiðslu hjólbarða hefur nú verið bönnuð. Þá eru sumir næmir fyrir náttúrulegu gúmmíi eða latexi og ef loftræsting er ekki nægileg í yfirbyggðum gervigrasvöllum þá er þeim hætt við að fá ofnæmisviðbrögð.

Gúmmíkurl getur líka haft skaðleg áhrif á lífríki í námunda við velli utanhúss því þungmálmar eiga það til að leka út í nálægt umhverfi og skaða lífverur í vatni og jarðvegi. Nokkur Evrópuríki hafa verið með til skoðunar hvort eðlilegt sé að leyfa þessa notkun á dekkjakurli. Í Svíþjóð og Noregi hefur verið mælt með að banna lagningu nýs gervigrass með endurunnu gúmmíi en á gervigrasvöllum í notkun verði engar slíkar kröfur gerðar, en skipt út eftir þörfum.

Umhverfisstofnun hefur  kallað eftir upplýsingum frá þremur innflytjendum um efnainnihald gúmmíkurls úr dekkjum sem notað er á gervigrasvöllum. Ekki er til mörk fyrir efni eins og PAH í dekkjakurli hér á landi, en mörk fyrir PAH í dekkjum sem seld eru á Íslandi er 10 mg/kg.   Einnig hefur komið fram hjá innflytjendum að gúmmíkurlið er flutt inn í tollflokki 4004.0000; úrgangur, afskurður og rusl úr gúmmíi (þó ekki harðgúmmí) og duft og korn úr því. Stofnunin er jafnframt að skoða hvaða þýðingu það hefur, ef dekkjakurl er skilgreint sem úrgangur.

 

Styrkur PAH mg/kg

 

Dekkjakurl 1

13

Mæligildi framleiðanda frá 2012

Dekkjakurl 2

13

Mæligildi frá framleiðand 2013

Dekkjakurl 3

<55

Mæligildi frá framleiðanda2014

Gúmmímotta

77

  Mæligildi framleiðanda frá 2015

Leyft Innihald í dekkjum skv. REACH reglugerð nr. 888/2015

10

Gildir frá árinu 2010

 

Umhverfisstofnun hefur átt samskipti við ýmsa aðila sem leggjast gegn notkun á  dekkjagúmmíkurli eins og hópur foreldra í Reykjavík og forystumenn lækna sem stóðu að ályktun Læknafélags Íslands. Verið er að skoða að gera efnagreiningar á gúmmíkurli og er stofnunin er komin með tilboði í slíkar mælingar. Að auki er verið að kanna notkun á gúmmíkurli.