Stök frétt

Samkvæmt ályktun Alþingis frá 2. júní 2016 um bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum var umhverfis- og auðlindaráðherra falið, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun, að móta áætlun sem miðaði að því að kurluðu dekkjagúmmíi yrði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það væri að finna. Vinnuhópur sem skipaður var í kjölfarið skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra tillögu að áætlun í desember sl.

Útgefin áætlun er í samræmi við tillögur skipaðs vinnuhóps og gerir ráð fyrir því að fyrir árslok 2019 verði búið að skipta kurluðu dekkjagúmmíi út fyrir hættuminni efni á 60% allra leik- og íþróttavalla þar sem laust kurl kemst í beina snertingu við iðkendur, 80% leik- og íþróttavalla fyrir árslok 2022 og að verkinu verði lokið að fullu fyrir árslok 2026.  Til að fylgjast með framvindu mála mun Umhverfisstofnun meta innleiðingu og árangur áætlunarinnar í lok hvers tímabils og upplýsa umhverfis- og auðlindaráðuneytið um stöðu mála. Mörg sveitarfélög hafa nú þegar skipt um kurl á völlum sínum. Sem dæmi má nefna að í Reykjavík hefur verið virkjuð aðgerðaáætlun um skiptingu á dekkjakurli og verður í lok sumars 2017 búið að skipta um dekkjakurl á níu stórum gervigrasvöllum auk vallarins í Egilshöll.

Eins og fram hefur komið í almennum tilmælum Umhverfisstofnunar frá síðasta ári um dekkjakurl sem fylliefni á gervigrasvöllum inniheldur kurl sem unnið er úr hjólbörðum hættuleg efni í litlu magni. Stofnunin benti á að ætíð er æskilegt að draga úr notkun heilsu- og umhverfisskaðlegra efna. Þá upplýsti stofnunin að rannsóknir hafa ekki sýnt fram á að notkun dekkjakurls valdi heilsufarslegum skaða, en beindi því þó til aðila sem bera ábyrgð á gervigrasvöllum, að við endurnýjun vallanna eða við byggingu nýrra valla verði notaðar aðrar lausnir. Tilmæli Umhverfisstofnunar má finna hér.  

Efnastofnun Evrópu (ECHA) er nú með til sérstakrar skoðunar hvort heilsufarsleg áhætta geti stafað af notkun dekkjakurls sem fylliefnis í gervigrasi. Efnastofnun Evrópu mælir ekki gegn notkun íþróttavalla með dekkjakurli á forsendum núverandi þekkingar.Ekki eru til reglur eða viðmið sem segja til um hvenær endurnýja eigi velli með gúmmíkurli. Aftur á móti hefur verið áætlað að eðlilegt sé að endurnýja kurl á völlum á um 10 ára fresti, en það fer einnig eftir ásigkomulagi vallanna.

Hægt er að nálgast áætlunina á eftirfarandi slóð: https://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/aaetlun-vegna-dekkjakurls-komin-ut