Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Í ljósi þess að þekktasti ferðamannastaður Möltu, hinn fyrrum glæsilegi steinbogi Azure-glugginn, hrundi í sjóinn fyrir skemmstu, hefur þeirri spurningu verið velt upp hvort sömu örlög gætu beðið annars náttúrufyrirbrigðis hér á landi, gatsins í Dyrhólaey.

 Í Dyrhólaey hefur oft orðið hrun og hefur verið girt fyrir umferð ferðamanna í hlutum hennar í verndar- og varúðarskyni. Í skýrslu sem Veðurstofan vann fyrir Umhverfisstofnun segir að berghrun og grjótskriður verði með reglulegu millibili á allri sunnanverðri Dyrhólaey vegna samspils margra þátta.

„Hellisskúta má finna víða niðri við fjöruna, þar sem brimið hefur grafið undan klettunum. Margir þættir gera það að verkum að berghrun og grjótskriður verða í Dyrhólaey; lóðréttar sprungumyndanir, áköf úrkoma, frost, undangröftur af völdum sjávar og lamstur brimsins. Hrun í Dyrhólaey gera almennt ekki boð á undan sér og hafa orðið stór hrun í suðurhluta eyjunnar sem erfitt er að spá fyrir um,“ segir í skýrslunni.

Landverðir fylgjast með landmótun, sprungumyndunum og undangreftri vegna brimrofs. Búið er að girða af alla suðurhluta bjargbrúnarinnar og loka gönguleið út á Tóna þar sem gengið er yfir dyrnar sem eyjan dregur nafn sitt af. Einnig hafa verið sett upp skilti sem vara við þessari hættu.

Það hrynur því reglulega úr Dyrhólaey og eyjan minkar frá ári til árs. Hvort gat hennar er í hættu er erfiðara að segja um en steinboginn á Möltu hrundi í heilu lagi í miklum öldugangi. Varað hafði verið við því að veðrun og landrof gæti ógnað tilvist náttúruperlunnar. Þá óhlýðnuðust ferðamenn ítrekað og gengu yfir steinbogann þótt sekt lægi við því, ekki síst eftir að Glugginn varð heimsþekktur vegna Games of Throne.

Hákon Ásgeirsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, tók sólarlagsmyndina sem fylgir fréttinni.