Stök frétt

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar telur Umhverfisstofnun rétt að benda á að PAH-efni (Fjölhringja arómatísk vetniskolefni) eru lífræn efnasambönd sem myndast til dæmis vegna iðnaðarferla og umferðar. PAH efni eru stór hópur efna en aðeins eru sett umhverfismörk fyrir eitt þeirra, benzó[a]pýren. Þau mörk eru 1 ng/ m3 að meðaltali yfir heilt almanaksár, en hæsta mæling til þessa er 0,02 ng/m3 og því töluvert undir umhverfismörkum. Niðurstöður PAH mælinga gefa ekki tilefni til neinna sérstakra aðgerða.

Arsen telst til þeirra þungmálma sem verið er að vakta þrátt fyrir að hafa ekki sömu eiginleika og aðrir þungmálmar. Svifryki úr andrúmslofti er safnað í sýni og eru þungmálmar og PAH efni greind í kjölfarið. Af þessum efnum er arsen það eina sem gefur til kynna í nýlegum mælingum að geti farið yfir umhverfismörk.

Í mati á umhverfisáhrifum fyrir Sameinað Sílikon var gert mat á losun arsens frá verksmiðjunni en það mat gerði ráð fyrir að hæst gæti styrkur arsens náð 0,32 ng/ m3. Ljóst er að um vanmat var þar að ræða en núverandi mæligildi eru á bilinu frá 6 til 7 ng/ m3. Umhverfismörk arsens eru miðuð við heilt almanaksár og eru 6 ng/ m3. Mælingar hafa staðið yfir frá því í mars 2016 en hæsta einstaka mælingin til þessa er 6,9 ng/ m3. Ekki er hægt að reikna ársmeðaltal fyrr en eftir fyrsta heila almanaksárið og einnig má gera má ráð fyrir að óvissa í mælingum sé allt að +/-25%. Miðað við þau gildi sem nú liggja fyrir eftir að verksmiðjan hóf rekstur er ljóst að styrkur arsens gæti orðið yfir umhverfismörkum eftir fyrsta heila rekstrarárið ef ekki verður breyting á.

Umhverfisstofnun fylgist áfram náið með losun mengunarefna í Helguvík og starfsemi Sameinaðs Sílikons hf. Mæligilda fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2017 er að vænta í lok apríl. Varðandi mat á áhrifum á heilsu fólks ráðfærir stofnunin sig við embætti sóttvarnarlæknis sbr.  

http://ust.is/einstaklingar/frettir/frett/2017/03/13/Sameiginleg-yfirlysing-sottvarnalaeknis-og-Umhverfisstofnunar-um-ahrif-mengunar-fra-kisilverksmidjunni-i-Helguvik/