Stök frétt

Ströng skilyrði fylgja því að fá leyfi til að heimsækja Surtsey. Fáir hafa sennilega komið oftar út í þessa mögnuðu eyju en Þórdís V. Bragadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, en hún sér um leyfisveitingar og eftirlit. Þórdís er með starfsaðstöðu í Vestmannaeyjum.

„Það er skemmtileg tilviljun að fyrstu ferðina mína út í Surtsey bar upp á afmælisdaginn minn,“ segir Þórdís.

Þórdís, sem er líffræðimenntuð, hefur veitt tvö fyrstu leyfi ársins 2017 fyrir heimsóknir út í eyjuna. Annars vegar er um erlent kvikmyndafyrirtæki að ræða sem vinnur að mynd um sköpun eyjunnar. Hins vegar fær starfsmaður Veðurstofunnar leyfi til viðhalds veðurstöðvar og vefmyndavélar.

Surtsey var friðlýst árið 1965 og er á heimsminjaskrá Unesco sem einstakur staður náttúruminja. Tryggja ber að þróun eyjunnar verði eftir lögmálum náttúrunnar en ekki mannsins. Því þarf svo eitt dæmi sé nefnt að hreinsa vel fatnað þeirra sem heimsækja eyna sem og allan búnað.

En hvernig tilfinning er að ganga um svæði þar sem mannshöndin er hvergi nærri og eyjan þannig séð einstakt svæði á tímum hnattvæðingar og fjöldaumferðar mannfólks um allan heim?

„Tilfinningin að standa í gígunum í Surtsey í algerri þögn sem er aðeins rofin af stöku fugli sem flýgur yfir og daufum sjávarnið er ólýsanleg. Það er eins og maður sé aleinn í heiminum. Þegar gengið er um eyjuna má sjá lífríki í mótun hvert sem litið er og ýmis ummerki eftir kraftana sem skópu eyjuna. Munur milli ára er oft greinilegur auk þess sem hægt er að sjá breytingar á tanganum milli mánaða og jafnvel vikna,“ segir Þórdís þegar upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar biður hana að miðla reynslu sinni til almennings.

Spurð hve oft Þórdís hafi heimsótt Surtsey, segist hún sennilega hafa  farið 17 sinnum út í Surtsey á sex árum. Þar af séu 8 gistiferðir. „Ég hef lengst dvalið í eyjunni í 11 daga samfellt ef ég man rétt en þá var ekki hægt að sækja okkur vegna þoku svo heimferðin dróst örlítið.“

Þórdís getur þess kímin að það hafi komið fyrir að aðrir starfsmenn Umhverfisstofnunar hafi þurft að leysa hana af í styttri ferðir. „Ég er með langan biðlista af starfsmönnum sem vonast til að ég forfallist!“