Stök frétt

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er uppi óvissa um áreiðanleika arsenmælinga í Helguvík. Undanfarna daga hefur Umhverfisstofnun haft til skoðunar framangreindar niðurstöður og grunngögn sem liggja að baki þeim. Vísbendingar eru um að styrkur arsens sé lægri en fram hefur komið. Hér er um mjög óvenjulegt atvik að ræða sem gefur ástæðu til að kafa nánar ofan í þessar niðurstöður.

Um tvenns konar mistök gæti verið að ræða. Ljóst er að réttri aðferðarfræði var ekki fylgt þegar viðkomandi vöktunaraðili sendi sýni héðan til greininga erlendis. Að auki eru ákveðnar vísbendingar um að hugsanlega hafi verið gerð mistök við greiningu sýnaskammts fyrir október til desember 2016.

Áður hafði Sóttvarnalæknir greint frá því, á grundvelli fyrri upplýsinga um háan styrk arsens, að þegar litið væri til niðurstaðna erlendra rannsókna og leiðbeininga alþjóðlegra stofnana þá mætti álykta að styrkur arsens í nágrenni kísilverksmiðjunnar í Helguvík sé langt undir þeim mörkum sem talin eru valda bráðum alvarlegum heilsuspillandi áhrifum.

Vonast er til að nánari skýringar liggi fyrir sem fyrst og mun Umhverfisstofnun miðla þeim eins skjótt og auðið er.