Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Laugardaginn 1. júlí síðastliðinn fór fram fjöruhreinsun á Rauðasandi. Hreinsunin er samstarfsverkefni Vesturbyggðar, Umhverfisstofnunar og landeigenda á Rauðasandi en þetta var þriðja sumarið sem ráðist er í verkið. Alls voru gengnir um fjórir af átján kílómetra langri strandlengju Rauðasands og allt rusl hreinsað upp á þeim kafla. Byrjað var þar sem frá var horfið á síðasta ári og hreinsað allt niður á Bæjarodda neðan Saurbæjar en stefnan er að klára alla strandlengjuna á komandi árum. Um 25 m3 af rusli söfnuðust og kom fátt á óvart um upprunann en stærstur hluti þess var tengdur sjávarútvegi eins og fyrri ár.

Metþátttaka var í ár en auglýst var eftir sjálfboðaliðum og alls komu 27 einstaklingar að verkinu, að meðtöldum landeigendum, landvörðum Umhverfisstofnunar og aðila frá náttúrustofu Vestfjarða. Dagurinn var langur en leið hratt í blíðskaparveðri og endaði með selaskoðun og sundspretti nokkurra sjálfboðaliða í sjónum við sandinn.

Hluti af fjöruhreinsuninni er unnin í tengslum við OSPAR-samninginn sem Ísland er aðili að en Rauðisandur er ein þeirra fjara á Íslandi sem árlega eru vaktaðar í tengslum við hann. OSPAR hluti verkefnisins er unninn á þann hátt að afmarkaður hefur verið 100 metra kafli á ströndinni sem hreinsaður er árlega, allt rusl greint og talið og niðurstöðurnar skráðar í gagnagrunn OSPAR að því loknu. Náttúrustofa Vestfjarða sér um vettvangsvinnuna fyrir hönd Umhverfisstofnunar. OSPAR samningurinn gengur út á verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, meðal annars með því að draga úr mengun frá landi og uppsprettum á hafi. Á hverju ári berst mikið af rusli í hafið og safnast saman á hafsbotni, úti á opnu hafi eða rekur upp í fjörur og þarf mjög víðtækt samstarf að koma til við lausn á vandamálinu, meðal annars með forvörnum.

Umhverfisstofnun þakkar fyrir sitt leyti öllum þeim er komu að verkefninu, ekki hvað síst þeim duglegu sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið. Það er frábært að sjá hve margir voru tilbúnir til að gefa vinnu sína í þágu náttúrunnar og þess að viðhalda ægifegurð náttúruperlunnar Rauðasands.