Stök frétt

Síðan verkefnið Græn skref í ríkisrekstri hófst hafa stofnanir með starfstöðvar á Akureyri verið afar duglegar að taka þátt og innleiða verkefnið hjá sér. Enda hefur viðkvæðið í úttektum á þessum stöðvum verið að það sé „ekkert mál“ og sjálfsagt að vinna að umhverfismálum.  Akureyringar hafa um langt skeið flokkað ötullega flestan úrgang og unnið að ýmsum öðrum verkefnum tengdum umhverfismálum. Það hefur án efa skapað jákvætt viðhorf til málaflokksins og átt þátt í því hve margar ríkisstofnanir á Akureyri eru byrjaðar að innleiða Græn skref í ríkisrekstri.

Nýlega fengu fjórar stofnanir á Akureyri afhentar viðurkenningar vegna Grænna skrefa. Skógræktin og Vegagerðin fengu sitt fyrsta Græna skref afhent. Isavia Akureyrarflugvöllur innleiddi og fékk viðurkenningu fyrir tvö fyrstu skrefin og starfstöð Landsvirkjunar fyrir þriðja skrefið. Auk þessara stofnana er Umhverfisstofnun á Akureyri þegar búin að ljúka við öll fimm skrefin, enda umsjónaraðili verkefnisins. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er komin með þrjú Græn skref og Vínbúðin á Akureyri hefur lokið öllum fimm skrefunum. Einnig eru Ferðamálastofa, Náttúrufræðistofnun Íslands og Veðurstofa Íslands þátttakendur í verkefninu.

Græn skref í ríkisrekstri eru á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og fer Umhverfisstofnun með umsjón verkefnisins. Markmið þess er að draga úr umhverfisáhrifum vegna opinbers reksturs og auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum. Verkefnið er ríkisstofnunum að kostnaðarlausu, en til að taka þátt þurfa ríkisstofnanir að skrá sig í verkefnið á www.graenskref.is og innleiða aðgerðir innan hvers skrefs. Þegar stofnanir telja sig hafa lokið skrefi fer fulltrúi frá Umhverfisstofnun yfir aðgerðirnar og tekur starfstöðina út.

Alls eru 44 ríkisstofnanir komnar í verkefnið með yfir 100 starfstöðvar, t.d. Alþingi, Menntaskólinn við Sund, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Háskóli Íslands, Ríkiskaup, Samgöngustofa og fleiri aðilar. Fjölbreytileikinn gefur fyrirheit um að það geti hentað hvaða ríkisstofnun sem er að taka Græn skref eða efla það sem fyrir er. Fimm ráðuneyti eru einnig komin í verkefnið; umhverfis- og auðlindaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Myndin er frá afhendingu viðurkenningarinnar hjá Skógrækt ríkisins.