Stök frétt

Búið er að opna salerni fyrir ferðamenn í Lágey í Dyrhólaey. Aðgangseyrir er 200 krónur og bæði hægt að greiða með korti eða hundrað króna peningum. Unnið er að frágangi í kringum salernið þar sem gert er ráð fyrir upplýsingaskiltum og áningasvæði.

Einnig er unnið að framkvæmdum við ný bílastæði við salernin sem munu leysa af hólmi eldri bílastæði á Lágey. Eldra bílastæði verður fjarlægt og gerður göngustígur frá nýja bílastæðinu að útsýnisstöðum. Gert er ráð fyrir að göngustígurinn verði fær hjólastólum. Klárað verður að ganga frá nýja bílastæðinu næsta vor. Það verður malbikað og rútu- og fólksbílastæði merkt sérstaklega.

Umhverfisstofnun fagnar því að nú stefni í heilsárs landvörslu í Dyrhólaey með auknu fjármagni. Landvörður þar mun einnig sinna náttúruvættinu Skógafossi. Skrefin sem hafa verið stigin eru löngu tímabær, þar sem straumur ferðamanna á Suðurlandi er nokkuð jafn yfir allt árið.