Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir til kynningar drög að endurskoðaðari umhverfisvöktunaráætlun fyrir iðjuverin á Grundartanga. 

Elkem Ísland og Norðurál hafa unnið sameiginlega að umhverfisvöktun um árabil. Ástæða endurskoðunarinnar er að nýlegar verksmiðjur, Kratus ehf. (Alur álvinnsla) og GMR hófu starfsemi á svæðinu 2013 og Norðurál fékk nýtt starfsleyfi fyrir aukinni framleiðslu árið 2016. Þá er starfsleyfi Elkem Ísland jafnframt í endurskoðun. Í júní árið 2016 var birt áfangaskýrsla tveggja sérfræðinga á vegum Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisinsins um veikindi hrossa á Kúludalsá. Í kjölfarið óskaði Umhverfisstofnun eftir áliti Matvælastofnunar vegna skýrslunnar og óskaði eftir ábendingum um fyrirkomulag vöktunar er snýr að grasbítum. Við endurskoðunina var auk fyrrgreindra þátta litið til samræmingar við vöktun í kringum önnur stóriðjuver hér á landi. 

Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á áætlun um umhverfisvöktun í kjölfarið. 

1. Almennt 

1.1. Umhverfisstofnun fær niðurstöður vöktunarmælinga um leið og þær liggja fyrir hverju sinni (innan 2 mánaða). 

2. Veðurmælingar 

2.1. Veðurmælingum við Grundartangahöfn verður áframhaldið um óákveðinn tíma. 

3. Loftgæði. 

3.1. Árið 2013 var ný loftgæðastöð tekin í gagnið að Gröf. Var staðsetning loftgæðastöðvarinnar metin útfrá loftdreifilíkani SO2 en hún er rétt utan við skilgreint þynningarsvæði SO2 á Grundartanga. Á sama tíma var ákveðið að afnema loftgæðastöð að Stekkjarási þar sem hún var staðsett innan þynningarsvæðis. 

3.2. Í kjölfar ábendinga frá Hvalfjarðarsveit og Umhverfisvaktarinnar var ákveðið að setja upp loftgæðastöð fyrir SO2 og H2S í Melahverfi (Hagamel) í ljósi nálægðar byggðarinnar við verksmiðjurnar. 

3.3. Samfelldar efnamælingar á úrkomu og síum loftgæðastöðva að Gröf og Kríuvörðu verða nú gerðar allt árið um kring. 

3.4. Umhverfisstofnun hefur óskað eftir uppfærðu loftdreifilíkani fyrir flúor og SO2 og er frestur veittur til loka árs 2018 til að ljúka þeirri vinnu. 

 

4. Ferskvatn 

4.1. Bætt hefur verið inn sýnatökustað í Kúludalsá vegna ábendinga ábúenda í nágrenninu um mögulega uppsöfnun flúors á því svæði. 

4.2. Sýnatökum í ferskvatni verður hagað þannig að fyrsta mæling ársins verði að vori (helst í kringum leysingar). 

5. Gróður (Gras, lauf og barr) 

5.1. Tíðni grassýnatöku verður aukin í þrjár sýnatökur á ári í stað tveggja, þ.e. einni sýnatöku bætt við um miðsumar. 

5.2. Leitað var samstarfs ábúanda að Kúludalsá um vöktun á grasi og heyi til að varpa betur ljósi á mögulega uppsöfnun flúors á bænum. Á fundi ábúanda og Umhverfisstofnunar 31. október árið 2016 og í tölvupósti þann 16. desember sama ár hafnaði ábúandi þáttöku og var því fallið frá því í þessari áætlun. 

6. Mosar og fléttur (klappar- og móareitir) 

6.1. Undanfarin ár hafa iðjuverin tekið þátt í verkefni Náttúrustofnunar Íslands um greiningu á þungmálmum og brennisteini í mosa. Þessar mælingar eru nú teknar inn í 

vöktunaráætlunina og verður þeirra framvegis getið í samhengi við aðrar niðurstöður umhverfisvöktunar á svæðinu. 

7. Grasbítar (sauðfé og hross) 

7.1. Áréttað er að Matvælastofnun séu sendar niðurstöður vöktunar á grasbítum og fóðri grasbíta þegar þær liggja fyrir samhliða því að þær eru sendar Umhverfisstofnun. 

7.2. Sauðfjárbúskapur hefur lagst af á bænum Hjalla í Kjós en unnið er að því að koma öðrum bæ inn í vöktunina þess í stað. 

8. Lífríki sjávar – kræklingur og setsýnataka 

8.1. Framvegis verður sýnataka gerð á fimm ára fresti í stað þriggja. Þessi breyting er gerð í ljósi þess að uppsöfnun hefur ekki mælst það greinanleg að talið sé að lækkun á tíðninni komi að sök. 

9. Hey 

9.1. Sjá umfjöllun í lið 5.2 

10. Jarðvegur 

10.1. Efnagreining á díoxíni, fúrani og þungmálmum í jarðvegi hefur verið framkvæmd í lok árs 2016 og næsta mæling mun fara fram 2021. Þörf á áframhaldandi vöktun verður metin þegar niðurstöður þeirra liggja fyrir. 

11. Hljóðkort 

11.1. Vöktun á hávaða frá iðjuverunum verður unnin af hverju fyrirtæki fyrir sig sem hluti af innri mæliáætlun. Þessi ákvörðun var tekin m.a. í ljósi niðurstaðna á hljóðkorti sem unnið var af Faxaflóahöfnum sumarið 2016 þar sem að ekkert benti til þess að hávaði frá verksmiðjurekstrinum væri nálægt eða yfir skilgreindum viðmiðunarmörkum reglugerða. 

 

Önnur mælinga- og rannsóknarverkefni: 

Í kjölfar álits Matvælastofnunar um áfangaskýrslu um veikindi hrossa á Kúludalsá hefur Umhverfisstofnun unnið að undirbúningi rannsóknarverkefnis um magn flúors í beinum hrossa á áhrifasvæði álvera samanborið við önnur svæði. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands, Matvælastofnun og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Áætlað er að niðurstöður þeirrar rannsóknar liggi fyrir í lok árs 2019. Sú rannsókn er á vegum Umhverfisstofnunar og utan við reglulega umhverfisvöktun á Grundartanga. 

Einnig hófust á árinu 2016 samanburðarmælingar á vegum Umhverfisstofnunar. Hefur nú verið gerður samningur til þriggja ára um mælingar í lofti og vatni. 

 

Umhverfisstofnun óskar eftir að athugasemdir við umhverfisvöktunaráætlunina berist stofnuninni á netfangið ust@ust.is fyrir 14. nóvember nk.

 

Tengd skjöl