Stök frétt

Í ár er heimilt að veiða 12 daga líkt og árið 2016. Það eru umtalsvert færri dagar en rjúpnaveiðimenn áttu að venjast hér áður fyrr þegar veiðitímabilið stóð í 69 daga. Reyndar fara flestir rjúpnaveiðimenn einungis innan við fjóra daga til rjúpnaveiða, óháð leyfilegum dagafjölda. Áreynsla, erfiði og þörf á rjúpum í jólamatinn hefur eflaust mikið að segja um það hversu marga daga menn halda til rjúpna. Veiðimenn eru hvattir til að veiða ekki fleiri rjúpur en þörf er á og minnt er á að sölubann er í gildi á rjúpum og rjúpnaafurðum.

Náttúrufræðistofnun Íslands metur að stofninn þoli veiðar á 57.000 rjúpum og er það aukning frá fyrra ári. Hófsemissjónarmið auka líkurnar á að hægt verði að stunda sjálfbærar rjúpnaveiðar um ókomna tíð. Það skiptir því máli að umgangast þessa náttúruauðlind af virðingu og standa um leið vörð um þau forréttindi sem felast í að geta stundað skotveiðar í íslenskri náttúru. Veiðimenn eru hvattir til góðrar umgengni um landið.

Fjöldi veiðidaga er 12 sem skiptast á fjórar helgar, þ.e. síðustu helgina í október og fyrstu þrjár í nóvember:

Föstudaginn 27. október til sunnudags 29. október. 3 dagar.

Föstudaginn 3. nóvember til sunnudags 5. nóvember. 3 dagar.

Föstudaginn 10. nóvember til sunnudags 12. nóvember. 3 dagar.

Föstudaginn 17. nóvember til sunnudags 19. nóvember. 3 dagar.

 

Veiðiverndarsvæði verður áfram á SV-landi líkt og undanfarin ár. (https://www.stjornarradid.is/media/umhverfisraduneyti-media/media/frettir/kortRjupa.JPG )

 

(Mynd af rjúpu: Wikipedia)