Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Auðlindatorgið er gagnvirk vefgátt sem þróuð er með það að leiðarljósi að auka nýtingu aukaafurða á Íslandi. Tilgangur markaðstorgsins er að tengja saman hugsanlega kaupendur og seljendur afurða,  notendur setja inn auglýsingar með upplýsingum um tengilið þar sem þeir óska eftir afurð/úrgangi eða auglýsa til sölu. 

Vefsíðan hefur þegar verið hönnuð og sett upp og Umhverfisstofnun leitar að aðila til þess að taka við rekstri hennar og til að hefja sókn í markaðssetningu.

Aðili sem tekur að sér rekstur torgsins mun hljóta fjárstyrk til markaðssetningar sem verður unnin í samstarfi við Umhverfisstofnun.

Mikilvægt er að áhugasamir aðilar kynni sér vel markmið og starfsemi Auðlindatorgsins www.audlindatorg.is

Markhópur Auðlindatorgs er fyrst og fremst framleiðendur vara úr íslenskum hráefnum.

Hæfniskröfur:

 • Samtök eða fyrirtæki sem hefur umhverfismál að leiðarljósi
 • Þekking á hugbúnaði og geta til þess að þjónusta torgið.
 • Starfsfólk sem kemur að verkefninu hafi reynslu af markaðssetningu eða sambærilegum verkefnum.

Tilgangur verkefnisins er að:

 • Auka nýtingu aukaafurða og stuðla að hringrásarhagkerfi
 • Virkja skráningu söluaðila og kaupenda á markaðstorginu
 • Markaðssetja Auðlindatorgið sem kjörinn markaðsstað í hugum seljenda og kaupenda aukaafurða

Í rekstri og markaðssetningu Auðlindatorgs felst eftirfarandi:

 • Hugmyndavinna um markaðssetningu í samstarfi við Umhverfisstofnun
 • Framleiðsla kynningarefnis
 • Gerð og framkvæmd birtingaráætlunar
 • Rekstur, þjónusta og viðhald við síðuna og notendur hennar

Umhverfisstofnun býður fram samstarf og fjárstyrk fyrir verkefnið að hámarki 2.500.000 kr fyrir útlögðum kostnaði við gerð kynningarefnis og markaðssetningu á Auðlindatorginu. Drög að samningi vegna framlags Umhverfisstofnunar til markaðssetningar má finna í fylgiskjali við þessa útboðslýsingu. Endanlegur samningur verður endurskoðaður í samráði við nýjan rekstraraðila.

Grunnrekstrarkostnaður sem myndi falla á nýjan rekstraraðila Auðlindatorgsins felur í sér gjöld fyrir hýsingu og lén vefsvæðis u.þ.b. 45.000 kr./ári miðað við fyrirkomulag á núverandi hýsingu.

Ekki er um formlegt útboð að ræða, enda eru fjárhæðir undir viðmiðunarmörkum laga um opinber innkaup.

Skriflegum gögnum um að bjóðendur uppfylli hæfniskröfur ásamt eftirfarandi þáttum skal skilað til Umhverfisstofnunar á rafrænu formi, merkt „Auðlindatorgið“.

 

 1. skilningur á tilgangi og markmiðum Auðlindatorgsins
 2. rekstraráætlun þar sem fram koma m.a. drög að kostnaðaráætlun
 3. hlutfall stöðugildis tileinkað Auðlindatorginu 
 4. framtíðarsýn, hvernig sér bjóðandi fyrir sér notagildi torgsins í náinni framtíð.
 5. drög að birtingaráætlun fyrir markaðssetningu
 6. verktaki skuldbindur sig til þess að reka síðuna í að lágmarki tvö ár

Matsnefndin byggir einkunnargjöf á framangreindum þáttum. 

Einkunn er á skalanum 1-5 (ófullnægjandi- ágætt) og er gefin fyrir hvern þátt fyrir sig.

Einkunnir verða lagðar saman og sá sem hlýtur hæstu einkunn hreppir hnossið.

Á grundvelli niðurstöðu matsnefndar verður gengið til samninga við einn aðila. Fyrirspurnir skal senda á hildurh@ust.is og elva@ust.is  í síðasta lagi 10.nóvember, svör verða birt á vefsíðu UST 14.nóvember. Tillögum skal skilað inn fyrir kl. 15.00 þann 17.nóvember 2017.

Tilkynningin um samstarfsaðila er væntaleg í lok nóvember.

Sjá drög að samningi hér.

Sjá fyrirspurnir og svör vegna verkefnisins hér.