Stök frétt

Uppgjöri rekstraraðila staðbundins iðnaðar og flugrekenda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir er lokið.

Alls gerðu fimm íslenskir flugrekendur og sjö rekstraraðilar iðnaðar upp heimildir sínar. Heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfið var 813.745 tonn CO2 ígilda, en í iðnaði var losunin 1.831.667 tonn af CO2 ígildum.

Losun frá flugi til og frá Íslandi jókst líkt og fyrri ár milli ára. Aukning losunar varð 13,2% milli áranna 2016 og 2017. Árið 2016 var losunin 718.624 tonn af CO2 en varð á síðasta ári 813.745 tonn af CO2. Þeim flugrekendum sem bar skylda til að gera upp losun sína fækkaði um einn og eru nú fimm. Losun frá flugi er þó háð takmörkunum að því leytinu til að hún er einungis losun innan EES svæðisins og tekur því ekki á heildarlosun flestra flugrekenda, þar sem t.d. Ameríkuflug er ekki innan gildissviðs kerfisins eins og er.

Losunin í iðnaði jókst lítillega á milli ára, eða um 2,8%, úr 1.780.965 tonnum af CO2 árið 2016 í 1.831.667 tonn af CO2 árið 2017. Jafnmargir rekstraraðilar í iðnaði gerðu upp fyrir árið 2017 og árið á undan, eða sjö talsins.

Framkvæmdastjórn ESB hefur birt lista yfir alla þá flugrekendur og rekstraraðila sem hafa gert upp losun sína. Má finna listann hér.

Á myndunum hér að neðan má sjá losun gróðurhúsalofttegunda (CO2) frá staðbundnum iðnaði og flugsamgöngum, er féll undir viðskiptakerfið og var í umsjón Íslands.

Heildarlosun flugrekenda sem falla undir Ísland með losun sem féll undir gildissvið ETS 2013-2017

Heildarlosun rekstraraðila sem falla undir Ísland með losun sem féll undir gildissvið ETS 2013-2017

 

Samanburður á losun í flugi og iðnaði sem féll undir gildissvið ETS 2013-2017

 

 

 

Um viðskiptakerfi ESB

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda er almennt nefnt ETS (e. Emission Trading System) og gegnir lykilhlutverki í aðgerðum Evrópusambandins gegn loftslagsbreytingum. Rekstraraðilum iðnaðar og flugrekendum er úthlutað losunarheimildum í samræmi við staðlaðar reglur sem samsvara fyrirfram ákveðnum takmörkunum. Það sem flugrekendur og rekstraraðilar losa umfram endurgjaldslausar losunarheimildir þurfa þeir að kaupa heimildir á markaði og er kerfinu þannig ætlað að vera hvati til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Kerfið nær utan um 45% af losun gróðurhúsalofttegunda innan ESB og hefur það markmið að árið 2020 verði losun í þeim geirum sem falla undir kerfið 21% lægri en hún var árið 2005, og 43% lægri árið 2030. Þessu á að ná fram með því að fækka endurgjaldslausum losunarheimildum til rekstraraðila um 1,74% ár hvert. Losunarheimildir til flugrekenda fækkuðu um 5% fyrir viðskiptatímabilið 2013-2020 miðað við meðallosun árin 2004-2005.

Kerfið nær utan um yfir 11.000 rekstraraðila í staðbundnum iðnaði og stærstan hluta losunar frá flugi sem sér stað innan EES- svæðisins, en virkir flugrekendur innan ETS voru 776 árið 2015. Ísland, Noregur og Liechtenstein taka þátt í kerfinu í gegnum EES samninginn.

Rekstraraðilar sem falla undir kerfið eru þeir sem hafa uppsett nafnvarmaafl yfir 20 MW, auk allra stöðva sem tilgreindar eru í viðauka tilskipunar ESB nr. 87/2003/EB. Framkvæmdastjórn ESB gefur síðan árlega út lista yfir hvaða flugrekendur falla undir hvaða ríki. Samkvæmt nýjasta listanum falla alls 239 flugrekendur undir stjórn Íslands, þó að langflestir séu undanþegnir gildissviði kerfisins. Þeim flugrekendum og rekstraraðilum iðnaðar sem falla undir kerfið ber að skila vottaðri losunarskýrslu til Umhverfisstofnunar fyrir 31. mars ár hvert og gera upp losunarheimildir fyrir 30. apríl.

Nánari upplýsingar um ETS: http://ust.is/einstaklingar/loftslagsbreytingar/vidskiptakerfi-esb/

Mynd með frétt: Wikimedia Commons.