Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur nú lagt fram til kynningar tillögu að friðlýsingu vatnasviðs Hólmsár: 20 Hólmsárvirkjun við Einhyrning, með miðlun á grundvelli flokkunar svæðisins í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar, sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013.

Lögð er fram tillaga að auglýsingu um friðlýsingu svæðisins og kort þar sem tillaga að mörkum svæðisins er dregin upp. 

Tillagan byggir á 53. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. 

Forsendur afmörkunar

Í rökstuðningi fyrir afmörkun verndarsvæðis kemur fram að vegna 20 Hólmsárvirkjunar við Einhyrning með miðlun háttar þannig til að annar virkjunarkostur neðar í ánni, Hólmsárvirkjun við Atley, hefur verið lagður fram til umfjöllunar í rammaáætlun. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið telur eðlilegt að sá kostur fái meðferð skv. lögum nr. 48/2011 og því verður farvegur Hólmsár ekki friðlýstur til sjávar að svo komnu  máli. Í ljósi skilgreiningar á áhrifasvæði virkjunarkosta er talið rétt að friðlýsa árfarveginn niður að efstu orkumannvirkjum virkjunarkosta í ánni sem komið hafa til umfjöllunar í rammaáætlun, þ.e. niður að efstu mörkum fyrirhugaðs Atleyjarlóns, eins og það var kynnt í 3. áfanga rammaáætlunar. Því er lagt til að verndarsvæði vegna Hólmsár við Einhyrning sé vatnasvið ofan stíflumannvirkja fyrrum fyrirhugaðrar Hólmsárvirkjunar við Einhyrning og meginfarvegur Hólmsár þar fyrir neðan, 500 m út frá miðlínu til beggja handa, að efstu mörkum fyrirhugaðs Atleyjarlóns eins og það var kynnt í 3. áfanga rammaáætlunar. Mörk svæðisins fylgi jökuljaðri

Frestur til að skila athugasemdum

Frestur til að skila athugasemdum er til og með 14. desember 2018. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við tillöguna og vísar tillögu að friðlýsingarskilmálum til ráðherra. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.iseða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

Frekari upplýsingarveita Ingibjörg Marta Bjarnadóttir (ingibjorg.bjarnadottir@umhverfisstofnun.is), Sigrún Ágústsdóttir (sigruna@umhverfisstofnun.is) og Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@umhverfisstofnun.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.