Stök frétt

Árið 2005 tók gildireglugerð um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir og var hún sett til að innleiða tilskipun 2002/49/EB um mat og stjórn á hávaða í umhverfinu.

Markmið reglugerðarinnar er að kortleggja og meta hávaða og leggja grunn að aðgerðum til að draga úr ónæði og truflunum af völdum hávaða. Reglugerðin tekur til hávaða sem fólk verður fyrir á byggðum svæðum, á útivistarsvæðum, og kyrrlátum svæðum í þéttbýli og dreifbýli, við skóla, sjúkrastofnanir og aðrar byggingar þar sem fólk er viðkvæmt fyrir hávaða.

Samkvæmt reglugerðinni skal kortleggja hávaða fyrir þéttbýlissvæði, með yfir 100.000 íbúa og vegna hávaða frá stórum vegum með umferð yfir 3 milljónir ökutækja á ári og á stórum flugvöllum með meira en 50.000 flughreyfingar á ári. Hávaðakort endurspegla útreiknaðan hávaða á tilteknu svæði. Aðgerðaáætlun er áætlun um aðgerðir sem hafa það markmið að stýra hávaða og draga úr hávaða og óæskilegum áhrifum hans. 

Verkefni sem fyrir lágu með tilkomu reglugerðarinnar fólu í sér að kortleggja skyldi hávaða á þéttbýlissvæðum, við stóra vegi og stóra flugvelli og meta hve margir verða fyrir áhrifum af völdum hans. Ákvarða skyldi gildi Lden (hávaðavísir að degi – kvöldi – nóttu) og Lnight (hávaðavísir að nóttu). Í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er kortlagður hávaði í þéttbýli og við stóra vegi og að auki er kortlagður hávaði við stóra vegi í sveitarfélögunum Akureyri, Árborg og Reykjanesbæ. Auk þess var framkvæmd hávaðakortlagning fyrir Keflavíkurflugvöll þar sem hann er skilgreindur sem stór flugvöllur. Hávaðakort sem sýna stöðu ársins á undan eru á ábyrgð veghaldara fyrir stóra vegi og á ábyrgð sveitarstjórna fyrir þéttbýlissvæði og er samvinna á milli þeirra aðila um gerð kortanna. Meta skal á fimm ára fresti hvort nauðsynlegt sé að endurskoða hávaðakort.

Komi í ljós við hávaðakortlagningu að hávaði er yfir umhverfismörkum, skv.reglugerð um hávaða, skal vinna áætlun um aðgerðir með það að markmiði að draga úr áhrifum hávaða. Sveitarstjórn ber ábyrgð á að aðgerðaáætlun sé gerð og skal hún unnin í samvinnu við veghaldara. Sveitarstjórn auglýsir aðgerðaáætlun og kynnir almenningi með almennum hætti í fjórar vikur og gefinn er kostur á athugasemdum við áætlunina. Í aðgerðaáætlun skal gerð grein fyrir einstökum aðgerðum, áætluðum áhrifum þeirra og forgangsröðun í samræmi við áherslur og ákvarðanir hlutaðeigandi aðila. Meta skal á fimm ára fresti hvort nauðsynlegt sé að endurskoða aðgerðaáætlanir.

Hávaðakortlagning fór fram árið 2012 og árið 2017. Í hávaðakortlagningunni 2017 var stærra landsvæði skoðað heldur en árið 2012 og einnig hefur umferð aukist töluvert frá árinu 2012. Á síðustu 5 árum hafa sveitarfélög farið eftir aðgerðaáætlunum fyrir árin 2013-2018, á grundvelli niðurstaðna hávaðakortlagninga fyrir árið 2012, og ráðist í aðgerðir, m.a. gerð hávaðavarna, til að draga úr hávaða.

Hægt er að sjá hávaðakort og greinargerð hér: https://www.ust.is/einstaklingar/umhverfi-og-heilsa/havadi/#Tab6