Stök frétt

Í hópi mikilvægra verkefna Umhverfisstofnunar er að hafa umsjón með innleiðingu vatnatilskipunar, (Directive 2000/60/EC) sem samþykkt var í Evrópu árið 2000. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að stuðla að verndun vatns og vistkerfa þess.

Samkvæmt tilskipuninni er markmið allra Evrópulanda að yfirborðsvatn og grunnvatn sé í  viðvarandi góðu ástandi. Tilskipunin er rammi utan um margar aðrar tilskipanir er varða mengun og verndun vatns. Innleiðing tilskipunarinnar hófst á Íslandi árið 2011 með lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Tilskipunin nær yfir grunnvatn og allt yfirborðsvatn (þ.e. straumvötn, stöðuvötn og strandsjó). Grunneiningar kerfisins eru svokölluð „vatnshlot“ en vatnshlot eru afmarkaðar stjórnsýslueiningar sem fá tiltekin raðnúmer innan kerfisins. Til dæmis getur eitt stöðuvatn verið eitt vatnshlot, eða tiltekinn hluti straumvatns.

Auðlind sem ekki er sjálfsagður hlutur

Vatn er forsenda lífsins, auðlind sem þjóðir taka almennt ekki sem sjálfsögðum hlut. Íslendingar hinvegar eiga mikið af vatni sem er í góðu ástandi. Tilgangur vatnatilskipunarinnar er að hin mikilvæga auðlind haldist í góðu ástandi fyrir komandi kynslóðir. Öll vinna við vatnatilskipun hefur verið sett undir heitið „Stjórn vatnamála" þar sem öll mál er varða verndun og vöktun vatns eru undir einum hatti. Þannig verður til heildstætt kerfi sem teygir anga sína allt frá ráðuneytum til einstaklinga.

Margir koma að framkvæmd laganna, t.d. Veðurstofa Íslands, Hafrannsóknarstofnun,  Náttúrufræðistofnun Íslands og Orkustofnun. Jafnframt koma rannsóknastofnanir, sveitarfélög og heilbrigðisnefndir sveitafélaga að framkvæmdinni. Stjórn vatnamála kallar því á mikla samvinnu og sameiginlegt átak allra til að koma á lokaafurð stjórnar vatnamála sem er vatnaáætlun fyrir Ísland (e. River Basin Management Plan), en vatnaáætlun inniheldur m.a. allar upplýsingar um ástand vatns, álag, vöktun og fyrirliggjandi aðgerðir. Hver vatnaáætlun er staðfest af umhverfis- og auðlindaráðherra og endurskoðuð sjötta hvert ár. Gert er ráð fyrir að vatnaáætlun verði tilbúin til auglýsingar árið 2021 og taki gildi árið 2022.

Samningar hafa m.a. verið gerðir við Veðurstofu Íslands, Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands um framkvæmd laganna. Það er í mörg horn að líta við þessa vinnu, en eitt af hlutverkum þessara stofnanna er að búa til vistfræðilegt ástandsflokkunarkerfi sem byggir á gæðaþáttum (líffræðilegum, eðlisefnafræðilegum og vatnsformfræðilegum). Vatnshlot eru flokkuð eftir því í hvaða ástandsflokk þau falla. Nái þau ekki markmiðum sínum um gott ástand eru gerðar áætlanir um úrbætur. Jafnframt er unnið í ýmsum mótvægisaðgerðum til að ná fram góðu ástandi.

Vatn er samvinna

Nú þegar hefur margt áunnist t.d. má nefna að Umhverfisstofnun gaf út vöktunaráætlun fyrir Mývatn árin 2018-2023 og er nú verið að vinna að útgáfu vöktunaráætlunar fyrir Þingvallavatn. Ákveðið var að gera sérstakar vöktunaráætlanir undir stjórn vatnamála fyrir þessi tvö vötn vegna þess hve sérstaða þeirra er mikil, auk þess sem álagsgreining leiddi í ljós að vötnin eru líklega undir álagi m.a. vegna mannlegra umsvifa. Síðar munu þessar vöktunaráætlanir verða hluti af heildstæðri vöktunaráætlun fyrir Ísland.

Þá stendur yfir undirbúningur vegna vöktunar á svokölluðum forgangsefnum innan vatnatilskipunar, en um margskonar efni er að ræða, t.d. þungmálma og þrávirk lífræn efni. Nokkur af heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og Náttúrufræðistofa Kópavogs munu hefja sýnatökur í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun. Verða sýni tekin á ákveðnum stöðum þar sem álags er að vænta t.d. Í Tjörninni í Reykjavík, í Mývatni og í Þingvallavatni. Sýnin eru tekin mánaðarlega í eitt ár öllu jafna og eru þau send til Svíþjóðar á rannsóknarstofu til greiningar. Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessari vöktun.

Jafnframt voru tekin sýni í ágúst 2018 á þremur stöðum á landinu til að mæla lyfjaleifar í vatni sem skila sér út í umhverfið að mestu frá fráveitu. Sýnin voru tekin í fráveituvatni við útrásina við Klettagarða í Reykjavík, við útrásina í Varmá úr hreinsistöðinni í Hveragerði og við bakka Mývatns (við Reykjahlíð). Þessar niðurstöður voru nokkuð merkilegar og sýndu vel hvað þau lyf sem einstaklingar eru ýmist að innbyrða, bera á sig eða hella niður í fráveitu skila sér út í vatnið okkar.

Vatnsauðlindin kemur okkur öllum við. Vatn er ein dýrmætasta auðlind okkar, verndum hana saman. Vatnið er okkar lífslykill.