Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gert úttekt á gönguslóða á Skógaheiði meðfram Skógaá.  Umrætt svæði er friðlýst náttúruvætti samkvæmt auglýsingu nr . 477/1987. Núverandi gönguslóði og umhverfi hans er mjög illa farið vegna mikils fjölda ferðamanna samhliða veðrabreytingum, hlýinda og mikillar leysinga eftir langvarandi frostakafla.

Umhverfisstofnun undirbýr lokun á gönguslóða upp frá Fosstorfufossi vegna aurbleytu þar til aðstæður breytast og gönguslóði verður fær til göngu. Lokunin er bæði af öryggisástæðum og til að vernda gróður umhverfis gönguslóða.

Samkvæmt 25. gr. a. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 getur Umhverfisstofnun takmarkmarkað umferð eða lokað svæði vegna hættu á gróðurskemmdum. Ákvæðið er svohljóðandi:

Ef veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar eða vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru getur Umhverfisstofnun ákveðið að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði tímabundið fyrir ferðamönnum að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags, [Landgræðslunnar] 1) eða landeiganda eða að eigin frumkvæði. Samráð skal haft um slíka ákvörðun við hlutaðeigandi sveitarfélag og fulltrúa ferðaþjónustu og útivistarfólks sem ætla má að hyggi á ferðir um svæðið. Ef um eignarland er að ræða skal ætíð haft samráð við eiganda lands eða rétthafa áður en ákvörðun er tekin. Takmörkunin eða lokunin skal að jafnaði ekki standa lengur en tvær vikur en ef nauðsyn krefur er heimilt að framlengja hana, að fenginni staðfestingu ráðherra. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal birta í dagblöðum og útvarpi og á vefsíðum Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar.“

Stefnt er á að kanna ástand svæðisins aftur innan tveggja vikna og meta hvort aðstæður hafi batnað.

Umhverfisstofnun óskar hér með eftir umsögn og samráði varðandi umrædda lokun. Þar sem um skyndilokun er að ræða óskar stofnunin eftir svari sem fyrst eða eigi síðar en fyrir kl. 15:00 í dag, fimmtudaginn 21. febrúar 2019.

Nánari upplýsingar veitir umsjónarmaður svæðisins í síma  822-4018.