Stök frétt

Að lokinni úttekt 4. mars sl. á svæði við Skógaheiði ofan við Fosstorfufoss telur Umhverfisstofnun ekki æskilegt að opna svæðið fyrir umferð ferðamanna. Umhverfisstofnun telur nauðsynlegt að gönguslóði á Skógaheiði meðfram Skógaá verði lokaður áfram til 1. júní 2019 vegna verulegrar hættu á tjóni. Ef svæðið verður í stakk búið til að taka á móti gestum án þess að hætta sé á frekari skemmdum, verður svæðið opnað fyrr.

Samkvæmt 25. gr. a. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er staðfesting ráðherra áskilin ef loka á svæði lengur en tvær vikur. Ákvæðið er svohljóðandi:

Ef veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar eða vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru getur Umhverfisstofnun ákveðið að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði tímabundið fyrir ferðamönnum að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags, [Landgræðslunnar] 1) eða landeiganda eða að eigin frumkvæði. Samráð skal haft um slíka ákvörðun við hlutaðeigandi sveitarfélag og fulltrúa ferðaþjónustu og útivistarfólks sem ætla má að hyggi á ferðir um svæðið. Ef um eignarland er að ræða skal ætíð haft samráð við eiganda lands eða rétthafa áður en ákvörðun er tekin. Takmörkunin eða lokunin skal að jafnaði ekki standa lengur en tvær vikur en ef nauðsyn krefur er heimilt að framlengja hana, að fenginni staðfestingu ráðherra. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal birta í dagblöðum og útvarpi og á vefsíðum Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar.“

Umhverfisstofnun óskar eftir umsögnum og samráði varðandi framlengingu lokunar fyrir kl. 14:00 fimmtudaginn 7. mars nk. svo framlenging lokunar geti tekið gildi kl. 09:00 árdegis laugardaginn 9. mars nk.

Nánari upplýsingar veitir umsjónarmaður svæðisins í síma  822-4018 eða daniel.jonsson@umhverfisstofnun.is