Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

34 stofnanir skila nú grænu bókhaldi og hafa þær aldrei verið fleiri. Þar með talin eru öll ráðuneytin. Bókhald sem byggir á upplýsingum um umhverfisáhrif ríkisstofnana nær til u.þ.b. 10.000 starfsmanna ríkisins.

Grænt bókhald er hluti af verkefninu Græn skref í ríkisrekstri. Í grænu bókhaldi eiga ríkisstofnanir að fylgjast með helstu umhverfisþáttum í rekstri sínum, greina tækifæri til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og setja sér markmið.

Umhverfisstofnun bendir á að verkefnin eru fjármögnuð af umhverfis- og auðlindaráðuneyti og eru því ríkisstofnunum að kostnaðarlausu. Innifalið í skrefunum eru leiðbeiningar við gerð græns bókhalds og innleiðing aðgerða til að draga úr umhverfisáhrifum með Grænum skrefum með aðstoð og ráðgjöf frá Umhverfisstofnun. Um gullið tækifæri er að ræða til að taka umhverfismálin föstum tökum.

Auk þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum geta verkefnin nýst til að bæta ímynd stofnana, starfsánægja eykst vegna jákvæðra samfélagsáhrifa, tækifæri til sparnaðar og hagræðingar skapast og svo mætti lengi telja.

Umhverfisstofnun hvetur ríkisstofnanir til að kynna sér verkefnin á vefsíðunni www.graenskref.is