Stök frétt

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt stefnumótun er kemur að lyfjaleifum í umhverfinu. Stefnan tekur á öllum lífsferli lyfja, frá hönnun, framleiðslu, notkun og til förgunar.

Sýnt hefur verið fram á að lyf sem komast út í umhverfið geta haft í för með sér neikvæð áhrif á fiska og annað lífríki t.d. með beinum áhrifum á atferli dýranna sem getur dregið úr möguleikum þeirra til að fjölga sér en einnig geta lyfin kallað fram eitrunaráhrif. Að auki þá geta lyfjaleifar ýtt undir sýklaónæmi. Lítið hefur verið vitað um áhrif lyfjaleifa í umhverfinu hingað til en aukin vitund um hugsanleg neikvæð áhrif lyfjaleifa í umhverfinu hefur ýtt undir frekari rannsóknir í málaflokknum til að undirbyggja stefnumótun sem á að miða að því að draga úr losun lyfjanna sér í lagi í vatn og jarðveg.  Lyfjaleifar hafa fundist í yfirborðs- og grunnvatni og í jarðvegi um alla Evrópu og fer styrkurinn eftir tegund lyfja, eðli þeirra og nálægð við uppsprettuna. Verkjalyf, sýklalyf, þunglyndislyf, getnaðarvarnir og sníklaeyðandi efni eru meðal þeirra lyfjaleifa sem oftast finnast í umhverfinu. Lyfjaleifar hafa einnig fundist í drykkjarvatni í Evrópu, yfirleitt þó í lágum styrk.    

Stefna Evrópusambandsins inniheldur fjölmargar aðgerðir sem hrinda á í framkvæmd. Þær aðgerðir sem nefndar eru:

  • Ýta undir vitundarvakningu og stuðla að varfærinni notkun lyfja.
  • Styðja við þróun lyfja sem hafa minni neikvæð áhrif á lífríkið og ýta undir umhverfisvænni framleiðslu lyfja.
  • Bæta áhættumat og leiðbeiningar þegar kemur að áhrifum á umhverfið.
  • Draga úr sóun og bæta úrgangsstjórnun.
  • Auka vöktun lyfjaleifa í umhverfinu.
  • Bæta við þekkingu og auka rannsóknir.

 Umhverfisstofnun hefur staðið fyrir sýnatökum í vatni í þeim tilgangi að kortleggja útbreiðslu efna, þ.m.t. lyfjaleifa í umhverfinu. Niðurstöðurnar benda til að töluvert magn lyfja berist út í umhverfið á Íslandi. Hér má sjá yfirlit yfir niðurstöðurnar.

Fréttatilkynningu Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins má lesa hér.