Stök frétt

Síðastliðinn mánudag var „grár dagur“ hjá Strætó. Tilefni dagsins var að veðururspár bentu til að þann dag gæti styrkur svifryks farið yfir heilsuverndarmörk. Á þessum „gráa degi“ var frítt í strætó og íbúar á höfðuðborgarsvæðinu voru hvattir til að hvíla einkabílinn. En hver er uppruni þessa svifryks á höfuðborgarsvæðinu? Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar þar sem reynt hefur verið að upprunagreina svifrykið. Nýjasta skýrslan var unnin af verkfræðistofunni Eflu. Verkefnið var styrkt af Vegagerðinni en notast var við tækjabúnað í eigu Umhverfisstofnunar.

Hæstu gildi svifryks mælast að jafnaði síðla vetrar og snemma á vorin. Því fór sýnataka í þessu verkefni fram á tímabilinu frá mars til maí árið 2015. Helstu niðurstöður má sjá á meðfylgjandi skífuriti. Slitið malbik skýrði að meðaltali um helming svifryksins. Sót var um þriðjungur og aðrir flokkar voru jarðvegur, salt og bremsuborðaryk. Um 7% af svifrykinu tókst ekki að upprunagreina.

Slitið malbik, sót, bremsuborðaryk og salt má allt rekja til umferðar bíla eða hálkuvarna. Samkvæmt rannsókninni má rekja 85% af svifryki til mannlegra athafna á höfuðborgarsvæðinu. Jarðvegur var að meðaltali 8% svifryksins. Færa má rök fyrir því að uppruni jarðvegshlutans sé að stærstum hluta jarðvegsframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Jarðvegur kemst m.a. út í umhverfið þegar bílum er ekið úti á götu á moldugum dekkjum.

Einhver hluti jarðvegsryks getur þó orðið til vegna uppblásturs annars staðar á landinu. Þannig atburðir er þó ekki algengir, venjulega teljandi á fingrum annarar handar á hverju ári og standa oftast stutt eða part úr degi. Landeyjarsandur er t.d. svæði þar sem jarðvegsfok getur orðið umtalsvert við ákveðnar veðuraðstæður. Líklega barst ryk þaðan yfir höfuðborgarsvæðið nýliðna helgi, en það breytir ekki stóru myndinni, því aðalatriði að bílaumferð á götum skýrir langmest af svifryki hér á landi. Slitið malbik er stærsti einstaki orsakavaldurinn og ekkert eitt töfraráð til. Notkun nagladekkja er sá þáttur sem helst veldur sliti á malbiki þannig að því færri bílar sem keyra um á nagladekkjum því minna slitnar malbikið. Gróflega má áætla að ef 5% bíla væru á nöglum myndu þeir slíta malbikinu jafnmikið og hin 95% bílanna sem ekki væru á nöglum. Staðan í lok þessa vetrar er hins vegar sú að 46% bíla á höfuðborgarsvæðinu eru á nöglum. Slit á malbiki er því að mestu leyti af völdum bílanna á negladekkjum.

Einnig þarf að huga að gatnaþrifum en þau eru ákveðin forvörn fyrir því að slitið malbik nái að þyrlast upp. Gatnaþrif eru hins vegar seinleg og oft erfitt að koma við að vetri til í frosti. Til viðbótar við gatnaþrif þarf því að rykbinda götur þegar aðstæður eru fyrir mikla rykmyndun. Eftir langvarandi vetrarfæri geta götur á höfuðborgarsvæðinu orðið mjög óhreinar. Þegar aðstæður breytast snöggt og það þornar eru götur mjög rykugar. Götusópur fer yfir á gönguhraða og tíminn sem tekur að hreinsa allar helstu umferðargötur mælist í dögum eða vikum. Hins vegar er hægt að rykbinda þessar sömu götur á parti úr degi með réttum tækjabúnaði. Þannig að minni notkun nagladekkja, gatnaþrif og rykbinding stuðla saman að því að draga úr styrk svifryks frá umferð.