Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gert úttekt á veginum að Sauðleysuvatni en ábendingin kom frá starfsmanni Umhverfisstofnunar eftir vettvangsferð með fulltrúa Veiðifélags Landmannaafréttar og fulltrúa samgöngu- og fjarskiptanefndar Rangárþings Ytra. Umrætt svæði er skilgreint sem friðland skv. auglýsingu nr. 354/1979. Hætta er á verulegum skemmdum á gróðri, jarðvegsrofi og breikkun á veg. Um er að ræða viðkvæma náttúru, akstur utan vega vegna jarðvegsrofs og óskýran vegkafla. Til þess að hægt sé að koma í veg fyrir skemmdir þarf að loka veginum tímabundið og taka til athugunar að færa veginn af viðkvæmasta gróðursvæðinu út á ógróið svæði í næsta nágrenni, gera veginn greinilegri og setja upp skýrari merkingar við aðra lokaða vegslóða sem liggja út frá núverndi veg. Samkvæmt 25. gr. a. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 getur Umhverfisstofnun takmarkmarkað umferð eða lokað svæði vegna hættu á gróðurskemmdum.

Ákvæðið er svohljóðandi:

Ef veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar eða vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru getur Umhverfisstofnun ákveðið að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði tímabundið fyrir ferðamönnum að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags, [Landgræðslunnar] 1) eða landeiganda eða að eigin frumkvæði. Samráð skal haft um slíka ákvörðun við hlutaðeigandi sveitarfélag og fulltrúa ferðaþjónustu og útivistarfólks sem ætla má að hyggi á ferðir um svæðið. Ef um eignarland er að ræða skal ætíð haft samráð við eiganda lands eða rétthafa áður en ákvörðun er tekin. Takmörkunin eða lokunin skal að jafnaði ekki standa lengur en tvær vikur en ef nauðsyn krefur er heimilt að framlengja hana, að fenginni staðfestingu ráðherra. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal birta í dagblöðum og útvarpi og á vefsíðum Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar.“

Áformað er að veginum verði lokað frá kl. 09:00, árdegis, föstudaginn 28. júní nk. Stefnt er á að metið verði hvort tekin verði ákvörðun um framlengingu á lokuninni innan tveggja vikna.

Umhverfisstofnun óskar hér með eftir umsögn og samráði varðandi umrædda lokun. Þar sem um skyndilokun er að ræða óskar stofnunin eftir svari sem fyrst eða eigi síðar en fyrir kl. 14:00 á morgun, fimmtudaginn 27. júní 2019.

Ef óskað er frekari upplýsinga vinsamlegast hafið samband við Hákon í síma 591-2000 eða sendið fyrirspurnir netfangið: hakon.asgeirsson@ust.is.