Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur fylgst með því frá árinu 2014 að þeir sem selja plöntuverndarvörur og útrýmingarefni til notkunar í atvinnuskyni gangi úr skugga um það að kaupendur á þessum vörum séu með gilt notendaleyfi. Nú er nýlokið við greiningu á upplýsingum vegna sölu á þessum vörum fyrir 2018 og leiðir hún í ljós að allir kaupendur á útrýmingarefnum til notkunar í atvinnuskyni reyndust vera með notendaleyfi í gildi þegar kaupin áttu sér stað, og 88% þeirra sem keyptu plöntuverndarvörur.

Hvað varðar útrýmingarefnin, þá er þetta í samræmi við niðurstöður fyrri ára og ljóst að allir söluaðilar þeirra uppfylla skyldur um að afhenda eingöngu vörur til einstaklinga sem eru með notendaleyfi í gildi. Meira hefur borið á því að plöntuverndarvörur sem ætlaðar eru til notkunar í atvinnuskyni hafi verið afhentar kaupendum sem ekki eru með gild notendaleyfi en þó hefur ástandið hvað þetta varðar farið batnandi allt frá árinu 2014. Það ár voru einungis 23% kaupenda með gild notendaleyfi.

Plöntuverndarvörur eru mest notaðar af bændum sem stunda framleiðslu á matjurtum og skrautplöntum og síðan þeim sem starfa við garðaúðun í atvinnuskyni. Útrýmingarefni eru aftur á móti notuð af þeim sem vinna við eyðingu meindýra. Til þess að geta fengið notendaleyfi þarf einstaklingur að hafa lokið námi eða setið námskeið þar sem fjallað er um, eftir atvikum, meðferð á  plöntuverndarvörum eða útrýmingarefnum og þarf viðkomandi að hafa staðist próf til að sýna fram á þekkingu sína.

Fyrirtækjum sem markaðssetja plöntuverndarvörur og nagdýraeitur sem einungis eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni, ber árlega að afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar um sölu á þessum vörum og kaupendur þeirra. Auk þess að fylgjast með því hvort farið sé að reglum við afhendingu á þessum vörum nýtir Umhverfisstofnun þessar upplýsingar til að reikna út áhættuvísa vegna markaðssetningar á plöntuverndarvörum sem settir eru fram í Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna 2016-2031.

 

Niðurstöðurnar úr þessu verkefni og öðrum eftirlitsverkefnum Umhverfisstofnunar með efnavörum má kynna sér nánar á heimasíðu stofnunarinnar.