Stök frétt

Landhelgisgæslan flutti í gær samansafnað fjörurusl úr friðlandinu í Búðahrauni og úr Beruvík í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli frá strandlengju og upp á veg þar sem þjóðgarðurinn mun láta flytja það í endurvinnslu í Ólafsvík. Verkefnið gekk vel að sögn þjóðgarðsvarðar, Jóns Björnssonar. Vill hann nota tækifærið og þakka Landhelgisgæslunni og þeim heimamönnum sem lögðu lið við hreinsunina fyrir framtakið. Sérstaklega vill Jón þakka Sigurði Vigfússyni sem býr á Bjarnarfossi, skammt frá friðlandinu í Búðahrauni og hans fólki sem átti frumkvæði að hreinsunnini í Búðahrauni.

Meginkostur þess að nota þyrlu til sorphreinsunar við verkefni eins og þessi er að umrædd svæði eru erfið yfirferðar og víða óaðgengileg. Alls flaug þyrlan átta ruslaferðir. Áætlað er að ruslið sé ríflega tvö tonn að þyngd.

Áfram verður unnið að því að hreinsa rusl úr fjörum þjóðgarðsins og nálægra friðlanda, að sögn þjóðgarðsvarðar. Snæfellsjökull er í umsjá Umhverfisstofnunar.