Stök frétt

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, lætur af störfum í dag, föstudaginn 18. október eftir farsæl störf hjá stofnuninni. Hún hefur verið forstjóri Umhverfisstofnunar á miklum umbrotatímum, allar götur frá 2008.
Umhverfismál eru stærsta mál samtímans og gegnir forstjóri Umhverfisstofnunar lykilhlutverki í trúverðugleika þegar kemur að þeim breytingum sem við stöndum frammi fyrir.

Kristín Linda hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum í þeim efnum. Hún kaupir ekki föt bara til að kaupa föt, heldur hugar að nýtingu og endingu. Hún gengur til og frá vinnu alla daga í öllum (eða vel flestum) veðrum og hamlar með því gegn hlýnun jarðar. Hún klárar matinn sinn í hádeginu og verður seint sökuð um matarsóun. Einkunnarorð Kristínar Lindu eru mörg, eitt af því sem hún hefur hamrað endalaust á er að það er ekki nóg að verkefni séu áhugaverð og skemmtileg – þau verða líka að vera mikilvæg og áríðandi! „Minna, minna, minna,“ er líka vel þekktur frasi úr hennar ranni og snýr að hófsemi í neyslu og ekki má heldur gleyma „teymi, teymi, teymi“. Svo er hún rökföst, hvetjandi, ráðagóð og mannasættir þegar á þarf að halda. Hún á auðvelt með að greina kjarnann frá hisminu.
Stjórnunarstefna Kristínar Lindu hefur um margt verið framsýn. Í því samhengi má sérstaklega geta framlags hennar til uppbyggingar starfstöðva víða um land. Kannski á hún inni byggðaverðlaun! Undir hennar stjórn hefur stefnu um störf án staðsetningar verið hrundið í virka framkvæmd innan Umhverfisstofnunar.
Við starfsmenn þökkum  Kristínu Lindu hjartanlega samveruna og  óskum henni alls hins besta á nýjum vettvangi.