Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun og Embætti landlæknis að höfðu samráði við framleiðendur sótthreinsivara beina þeim tilmælum til almennings, fyrirtækja og stofnana að henda ekki handpumpum af handsprittbrúsum, sápum eða öðrum sótthreinsivörum heldur endurnýta þá í ljósi þess að skortur er á slíkum pumpum í heiminum og fyrirsjáanlegt að framleiðendur geti einungis framleitt handspritt í áfyllingarbrúsum án pumpu. 

Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er um að ræða fyrirsjáanlegan skort á hráefnum til framleiðslu á handspritti eða sóttvarnarefnum og þar af leiðandi er óþarfi að hamstra handspritt eða sótthreinsivörur. Skorturinn á eingöngu við um handpumpurnar sjálfar. Fólk er áfram hvatt til að fylgja leiðbeiningum sóttvarnarlæknis og Embætti landlæknis um að þvo hendur með sápu og vatni en nota handspritt ef hendur eru ekki sýnilega óhreinar eða eftir meðhöndlun peninga og greiðslukorta. 

Sömuleiðis er fólki ráðlagt frá því að gera tilraunir við framleiðslu á eigin handspritti. Það handspritt sem er á markaði er framleitt af efnafræðingum og undir ströngum gæðakröfum og lagaskilyrðum og inniheldur hráefni sem að jafnaði eru ekki aðgengileg almenningi auk þess sem þekking á framleiðsluháttum er nauðsynleg til að handspritt skili tilætluðum árangri.