Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun sinnir eftirliti sem byggir á lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, reglugerð nr. 1020/2011 um rafhlöður og rafgeyma og reglugerð nr. 1061/2018 um raf- og rafeindatækjaúrgang. Markmið eftirlitsins er að hækka söfnunarhlutfall þessa úrgangs, fylgja eftir banni og takmörkunum á tilteknum efnum í rafhlöðum og rafgeymum og sjá til þess að upplýsingagjöf fyrirtækja til viðskiptavina sé fullnægjandi.

Hvert ár er eftirlit skilgreint með rafhlöðum, rafgeymum og raf- og rafeindatækjaúrgangi. Árið 2019 var eftirlitið með hefðbundnum hætti, þar sem farið var í fyrirvaralaus eftirlit til innflytjenda rafhlaðna, rafgeyma og raf- og rafeindatækja, sem höfðu ekki fengið eftirlitsheimsókn áður.

Af þeim 31 aðilum sem heimsóttir voru árið 2019, voru einungis þrír eftirlitsþegar sem fengu ekki athugasemdir. Hinir þurftu að gera úrbætur hjá sér sem vörðuðu ýmist vöntun á; upplýsingum til kaupenda, móttöku á notuðum rafhlöðum og rafgeymum, eða tunnumerki á vöru. Alls voru 244 vörur skoðaðar og voru gerðar athugasemdir í 58 tilvikum.

Á undanförnum árum hefur fjöldi þeirra vara sem skoðaðar eru aukist en um leið hefur dregið úr frávikum. Árið 2015 voru frávik/athugasemdir í 64% tilvika, en í fyrra voru frávik/athugasemdir í 24% tilvika.