Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Dyrhólaey er höfði sem gengur út í sjó við suðurströnd landsins og fer vart fram hjá ferðamönnum sem eiga þar leið hjá. Þessi 120m hái móbergsstapi dregur nafn sitt frá gatkletti sem blasir við þegar komið er að höfðanum frá vestri og austri og lítur út eins og stór og mikil dyr í berginu. Gatið er rúmlega 50m breitt og 20m hátt en þær tölur eru fengnar frá ofurhugum sem létu verða að því að fljúga í gegnum gatið árið 1995. 

Af Dyrhólaey er stórbrotið útsýni yfir Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul, Reynisfjöru og óralöngu sandströnd suðurlands. Svæðið býður upp á einstaka upplifun þar sem má sjá strandsvæði sem dregur útlit sitt frá fyrri menningu, ósnertri náttúru og fuglalífi. Það er auðvelt að gleyma tímanum þegar fylgst er með magnþrungnu briminu skella á skerjum, dröngum og brimklifum og fylgjast með sveimi fugla í fuglabjörgunum. Dyrhólaey var friðlýst árið 1978 af Íslenska ríkinu til að vernda svæðið gegn ágangi manna og halda því í sinni náttúrulegu mynd fyrir okkur og komandi kynslóðir til að njóta. Landvörður er með búsetu á svæðinu allt árið um kring og sér um innviðin, verndun náttúrunnar og fræðslu til gesta.

Dyrhólaeyjarviti er einn fallegasti viti landsins og hann má finna efst upp á Háey. Mikil og áhugaverð saga umlykur vitann en hann var til að mynda fyrsti steypti landtökuvitinn sem var tekinn í notkun á Íslandi. Vitinn er reistur árið 1927 og sjálfur Guðjón Samúelsson, einn dáðasti arkitekt Íslendinga sá um frumhönnun vitans. Allt til ársins 2015 var vitavörður sem sá um vitann en vitinn er nú orðinn nútímavæddur og að mestu leyti sjálfvirkur. Vitanum er haldið fallegum og í góðu lagi enda er hann enn þá í fullri virkni, hann var lagfærður og málaður að utan í júní 2020 og lítur einstaklega fallega út í dag. 

Margir fallegir fuglar eiga heimkynni í Dyrhólaey og þar ber helst að nefna lundann, fýlinn, kríu, langvíu, skúm, heiðlóu og jaðrakan. Best er að sjá lundann með því að ganga merkta stíga út frá bílastæðinu á Lágey. Í brimklifunum rétt við Arnardrang hafa þeir gert sér holur og sjást oft spóka sig fyrir framan heimilin sín. Einnig má sjá þá fljúga um og lenda í fuglabjörgunum af Háey. Fýllinn er annar einkennisfugl Dyrhólaeyjar og svífur oft glæsilega um brimklifin, við dranga og upp við fuglabjörgin, hann er fallegur fugl sem getur náð allt að 60-70 ára aldri. Gott og gaman er að taka kíki með í fuglaskoðun á Dyrhólaey til að sjá fuglanna í nærmynd. Við minnum gesti okkar að haldi sig innan merktra stíga og bera sérstaka varkárni gagnvart fuglalífinu yfir varptíma fuglanna(maí-september).

Landverðir verða með fræðslugöngur alla laugardaga í sumar kl.13  og við vonumst til að sem flestir sláist með í för.