Stök frétt

Þessa vikuna stendur yfir árlegur líffræðileiðangur þar sem unnið er að rannsóknum, áframhaldandi vöktun á lífríki eyjunnar fer fram og einnig verður að hreinsa sorp sem skolast upp á land. Hópurinn samanstendur af 9 manns en sá sem oftast hefur farið er að koma þangað fimmtugasta árið í röð.

Það er ekki hver sem er sem fær að fara til Surtseyjar þar sem eyjan er friðlýst sem friðland. Friðland er afmarkað landsvæði sem ákveðið hefur verið með lögum að vernda t.d. út af sjaldgæfum tegundum lífvera sem eru í hættu eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Landvörður Umhverfisstofnunar mun veita okkur innsýn í starfið þessa vikuna á instagram reikningi Náttúruverndar fyrir þau ykkar sem viljið fylgjast með.

Það eru 8 vísindamenn og landvörður sem taka þátt í leiðangrinum í ár en meðal þeirra eru tveir reynsluboltar. Erling Ólafsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands er að fara í eynna í hvorki meira né minna en fimmtugasta árið í röð og Borgþór Magnússon sem einnig starfar hjá Náttúrufræðistofnun og er með í för hefur einnig farið árlega í tugi ára. 

Hópurinn lenti í eyjunni í gær með þyrlu og verður fram á fimmtudag. Þeir tóku strax eftir miklum landslagsbreytingum þar sem jarðvegur hefur skolast úr hlíðum og út í haf en það hefur myndað sandstrendur á austanverðri eynni. Sandstrendur voru áður algengar í Surtsey en undanfarin ár hefur eyjan verið stórgrýtt á alla kanta.

Í leiðangrinum í fyrra safnaðist ansi mikið rusl á svæðinu og landverðir hreinsuðu t.d. um 80 netakúlur af tanganum nyrst á eyjunni. Það þykir þó framför þar sem mest hefur verið hreinsað burt 400 kúlur. Almennt er ruslið í Surtsey að mestu tengt veiðarfærum.

Það verður forvitnilegt að sjá hversu mikið safnast í ár en vonandi þýðir þessi fjöldi af netakúlum sem safnaðist í fyrra að betur sé verið að hugsa um hvað fer í sjóinn og það haldi áfram að fara minnkandi draslið sem endar þar.