Stök frétt

Mynd tekin af vef Síldarvinnslunnar hf.

Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi fyrir Síldarvinnsluna hf. í Neskaupstað til reksturs fiskimjölsverksmiðju. Í nýja starfsleyfinu er tekið tillit til áforma rekstraraðila um aukna afkastagetu. Með gildistöku þessa starfsleyfis fellur úr gildi eldra starfsleyfi fyrir verksmiðjuna sem Umhverfisstofnun gaf út 19. mars 2015.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar á tímabilinu 28. maí til og með 25. júní 2020 og var gefinn kostur á skriflegum umsögnum um tillöguna á því tímabili. Engin umsögn barst um tillöguna á auglýsingatíma. Engu að síður var ákveðið bæta ákvæði í starfsleyfið sem varðar að fylgjast þurfi með því hvort rekstraraðili falli undir viðskiptakerfi ESB með loftslagsheimildir.

Starfsleyfi þetta, sem gefið er út í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, öðlast þegar gildi og gildir til 3. september 2036.

Auglýsing þessi er birt á fréttavefsvæði Umhverfisstofnunar en auk þess í sérstökum dálk fyrir opinberar birtingar á starfsleyfum sem stofnunin gefur út.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Tengd skjöl:
Starfsleyfi Síldarvinnslunnar hf.