Stök frétt

Rjúpnaveiðitímabilið hefst sunnudaginn 1. nóvember næstkomandi. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur gefið út að veiðitímabilið vari frá 1. - 30. nóvember sbr.  reglugerð í fyrra. Heimilt verður að veiða fimm daga í viku, en veiðibann er á miðvikudögum og fimmtudögum.

Fyrirkomulag veiðanna sem ákveðið var árið 2019 er því óbreytt og byggir á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins í ár. Veiðistofninn nú er einn sá minnsti síðan mælingar hófust árið 1995. Aðeins einu sinni áður, 2002, hefur veiðistofninn verið metinn viðlíka lítill.

“Af þeim sökum er mjög mikilvægt að veiðimenn gæti hófsemi í veiðum og þá sérstaklega á Norðausturlandi,” segir Bjarni Pálsson, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, um fyrirkomulagið. “Við minnum líka á sölubannið, við munum fylgja því eftir að bannið verði virt eins og undangengin ár. Vegna þess hve viðkvæmur stofninn er, höfðum við til ábyrgðar veiðimanna og við höfum fulla trú á að þeir standist prófið."

Stefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins, líkt og annarra auðlinda, sé sjálfbær. Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar rannsóknir og vöktun á stofninum. Veiðimenn eru sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða m.a. með því að ljúka veiðum áður en rökkvar.

Verndarsvæði verður á SV-landi líkt og undanfarin ár.

Sjá nánar hér.