Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Náttúruunnandinn Jens-Kjeld Jensen hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2020 fyrir rannsóknir og miðlun upplýsinga um þróun líffræðilegrar fjölbreytni í Færeyjum. Þetta var kunngjört í gær.

Elva Rakel Jónsdóttir, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun sat í dómnefnd. Hún segir fara vel á því að Jens-Kjeld hljóti þennan heiður. Líffræðileg fjölbreytni sé forsenda þess að viðhalda jafnvægi í náttúrunni, sjálfur lífsgrundvöllur okkar sé undir.

Með mannamálið að vopni

Jens-Kjeld er að mestu sjálfmenntaður. Hann hefur skrifað fjölda bóka og greina og er að mati dómnefndar fyrirmyndardæmi um það sem sannur eldhugi geti komið til leiðar. Í meira en fjörutíu ár hefur verðlaunahafinn sankað að sér þekkingu og skrásett fróðleik um allt frá flóm, músum og fuglum til steingervinga, sveppa og runnagróðurs í færeysku fjalllendi. Hann skrifar á mannamáli og hefur þannig upplýst færeyskan almenning, skólabörn og fagfólk um skaðleg áhrif ágengra tegunda og inngripa á hina viðkvæmu náttúru Færeyja, svo nokkuð sé nefnt.
Þá hefur Jens-Kjeld í samstarfi við náttúruvísindafólk um allan heim komið að kortlagningu á yfir 350 nýjum tegundum í Færeyjum.