Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Um helgina fer fram á Internetinu í beinni útsendingu fyrirlestraveislan Lifum betur þar sem haldnir verða 20 fyrirlestrar um heilsu og umhverfismál frá hinum ýmsu sjónarhornum. Þessi tvö málefni eru tengd á ótal vegu og því áhugavert að sjá hvernig hægt er að vinna með þau saman og bæta andlega líðan, líkamlega heilsu og umhverfið um leið.

Umhverfisstofnun er aðal samstarfsaðili skipuleggjenda og leggur meðal annars til þrjá fyrirlestra. Hildur Harðardóttir í teymi Græns samfélags flytur fyrirlesturinn Hamingjusamt barn í heilbrigðu umhverfi en í honum segir hún frá skaðlegum áhrif efna í umhverfi okkar og hvernig við getum forðast þau.

Birgitta Stefánsdóttir sérfræðingur í teymi Græns samfélags flytur erindið Hæg tíska – Saman gegn sóun og útskýrir þær áskoranir sem fata - og textíliðnaðurinn stendur frammi fyrir um leið og hún fer yfir tækifæri til að gera betur.

Sólveig Halldórsdóttir úr teymi loftslags og loftgæða flytur fyrirlesturinn Betri loftgæði - betri heilsa.  Í honum mun hún útskýra hvaðan mengunin kemur, hvers vegna það er mikilvægt að draga úr loftmengunarefnum og hvernig við getum saman unnið að betri loftgæðum. Þetta skiptir máli því talið er að árlega megi rekja 60 ótímabær dauðsföll á Íslandi til loftmengunar.

Á viðburðinum verða einnig fyrirlestrar úr allt öðrum áttum, úr heimi íþrótta, heilsueflingar, heilbrigðismála o.s.frv. svo þetta ætti að vera fræðandi og fróðlegt fyrir alla!

Við hvetjum áhugasama að kynna sér umfjöllunarefni fyrirlestrana og næla sér í miða.

Nánari upplýsingar má finna á  https://lifumbetur.is/fyrirlestrar/